Er þetta ekki ágætt?

Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson mbl.is/Kristinn Magnúson

„Þetta er rosalega mikilvægur sigur upp á það að vera ennþá með í baráttunni. Þessi riðill er rosalegur. Við megum fagna í kvöld en svo verða menn að vera klárir í næsta verkefni því annars skiptir þessi sigur engu máli,“ sagði Emil Hallfreðsson eftir 2:0-sigur Íslands á Úkraínu í undankeppni HM í knattspyrnu í gærkvöld.

Á sama tíma og Ísland vann Úkraínu hafði Tyrkland betur gegn Króatíu. Emil og félagar í landsliðinu virtust ánægðir með úrslitin í Tyrklandi, en eftir gærkvöldið eru Króatía og Ísland með 16 stig og Úkraína og Tyrkland með 14 stig.

„Já, er þetta ekki bara ágætt? Þetta setur enn meiri spennu í riðilinn. Þetta er líklega langskemmtilegasti riðillinn í allri undankeppninni,“ sagði Emil. Ýmsir töldu að Emil myndi víkja úr byrjunarliði Íslands fyrir leikinn í gær, og hann fékk enga draumabyrjun því skoskur dómari leiksins gaf honum gult spjald eftir eina mínútu. Í seinni hálfleik var Emil hins vegar frábær og kom að báðum mörkum Gylfa Þórs Sigurðssonar:

„Ég náði að senda þessa fyrirgjöf í fyrra markinu og átti svolítinn þátt í báðum mörkunum, sem er bara gaman. Þó að ég hafi átt að vera „djúpur“ miðjumaður með Aroni þá var Heimir búinn að tala um að þegar færi gæfust til þess ætti ég að fara líka fram. Ég reyndi að nýta mér það aðeins í seinni hálfleik, enda opnuðust frekar svæði til þess auk þess sem við héldum betur boltanum og komum honum á Gylfa. Seinni hálfleikurinn gekk ótrúlega vel upp,“ sagði Emil.

Sjá allt viðtalið við Emil og allt um landsleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert