Eiginlega synd að þeir fengu rautt

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar í leiknum í kvöld.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við örlíti sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en þeir fá hættulegri færi sem ég er ósáttur við,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar eftir fyrsta sigur liðsins á tímabilinu sem kom gegn Val á heimavelli í kvöld. Leikurinn endaði 1:0.

„Þegar þeir verða manni færri þá verður þetta erfitt fyrir þá. Við píndum þá aðeins með því að vera ekkert að spila boltanum fram svo þeir þurftu að koma. Svo vorum við með fljóta menn aftur fyrir en svo aðeins dró aftur úr okkur þegar þeir fóru út af en þetta var sterkur sigur,“ sagði Jökull í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Valsarar voru einum færri frá 38. mínútu þegar Bjarni Mark Antonsson fékk hans annað gula spjald. Hversu mikið rauða spjaldið hjálpaði þeim gat Jökull ekki sagt en leikurinn var nokkuð jafn fram að því.

„Það er ómögulegt að segja það. Þá þarf maður að fara í ef og hefði leikinn sem ég er ekki hrifinn af en ég er með fáranglega trú á þessu liði og hafði fyrir þennan leik. Það er eiginlega bara synd að þeir fengu spjaldið því ég held að þetta hefði orðið mjög skemmtilegur og jafn leikur án þess.“ 

Bjarni Mark Antonsson var rekinn út af fyrir að sparka …
Bjarni Mark Antonsson var rekinn út af fyrir að sparka í Örvar Eggertsson á miðjum vallarhelming Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í byrjun seinni hálfleiks lágu Valsarar neðarlega á vellinum og varnarmenn Stjörnunnar skiptust á að spila boltanum sín á milli eða að standa á honum til þess að draga Valsliðið framar.

„Við ræddum þetta í hálfleik. Það er engin ástæða til þess að spila boltanum upp í þá. Við gerum ekki mistök á meðan að við stöndum á boltanum og mér fannst við gera þetta vel.“

Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar á tímabilinu en hingað til hafði liðið tapað 2:0 á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Víkings og 3:1 gegn KR.

„Þessi sigur er fyrst og fremst mikilvægur fyrir sjálfstraustið. Við hefðum getað tapað þessum leik og verið 0/3 eftir fáránlega erfitt prógramm í byrjun. Ég held að trúin hafa alltaf verið til staðar en ég held að þetta sé léttir fyrir menn og sjálfstraustið verður meira,“ sagði Jökull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert