Gary Martin orðinn Ólafsvíkingur

Gary Martin í leik með Selfossi.
Gary Martin í leik með Selfossi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Enski knattspyrnumaðurinn Gary Martin er genginn til liðs við Víking frá Ólafsvík eftir að hafa leikið með Selfyssingum undanfarin þrjú ár og leikur með liðinu í 2. deild á komandi keppnistímabili.

Gary Martin, sem er 33 ára gamall, er flestum knattspyrnuáhugamönnum kunnugur en hann hefur komið víða við síðan hann gekk til liðs við ÍA árið 2010. 

Hann hefur leikið með KR, Víkingi R., Val, ÍBV og Selfossi á ferli sínum hérlendis en hann hefur einnig spilað með Lokeren í Belgíu og Lilleström í Noregi. 

Hann er markahæsti erlendi leikmaðurinn í deildakeppni á Íslandi með 113 mörk í 216 leikjum í  tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og varð Íslandsmeistari með KR árið 2013.

Í efstu deild hefur Martin skorað 57 mörk í 108 leikjum og er þar þriðji markahæsti erlendi leikmaðurinn, á eftir Steven Lennon og  Patrick Pedersen.

Martin var markakóngur úrvalsdeildarinnar 2014 þegar hann skoraði 13 mörk fyrir KR og varð líka markahæstur, jafn tveimur öðrum, árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka