Mikið barnalán í Garðabænum

Betsy Hassett, þriðja frá vinstri, og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir (nr. …
Betsy Hassett, þriðja frá vinstri, og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir (nr. 8) eru báðar barnshafandi. mbl.is/Óttar Geirsson

Þrír leikmenn kvennaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu verða ekkert með á tímabilinu þar sem þær eru barnshafandi.

Fótbolti.net skýrði frá því í gær að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir og nýsjálenska landsliðskonan Betsy Hassett séu allar með barni og taki því engan þátt á nýhöfnu tímabilinu.

Tveir leikmenn til viðbótar sem hafa leikið með Stjörnunni undanfarin ár og komu við sögu í Bestu deildinni á síðasta tímabili eru sömuleiðis fjarverandi vegna barneigna.

Þar er um að ræða Eyjakonuna margreyndu Sóleyju Guðmundsdóttur og Stjörnukonuna uppöldu Maríu Sól Jakobsdóttur sem eignaðist barn fyrr á þessu ári og gæti mögulega spilað þegar líður á tímabilið.

Samningi Sóleyjar við Stjörnuna sem átti að renna út í lok þessa árs var rift og samningur Maríu Sólar rann út í lok síðasta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka