Hamfarirnar á Íslandi olía á eld strákanna

Stórsöngvarinn Hreimur Örn Heimisson.
Stórsöngvarinn Hreimur Örn Heimisson. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Ég hugsa að það sem er í gangi heima á Íslandi í dag sé olía á eldinn hjá strákunum,“ sagði tónlistarmaðurinn og söngvarinn Hreimur Örn Heimisson í samtali við mbl.is á Hofbräuhaus í München í dag.

Ísland mætir Svartfjallalandi í öðrum leik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í dag en Ísland gerði jafntefli við Serbíu í fyrstu umferðinni á meðan Svartfjallaland tapaði naumlega fyrir Ungverjalandi, 26:24.

„Þetta eru bæði synir og salt jarðarinnar, þessir strákar okkar í landsliðinu. Ég er mættur á mitt fyrsta stórmót og ég held að ég hafi aldrei verið jafn mikill Íslendingur og ég er nákvæmlega núna,“ sagði Hreimur.

Búnir að hlaupa af sér hornin

Hreimur á von á íslenskum stórsigri gegn Svartfjallalandi í dag.

„Ég ætla að vera djarfur og ég spái því að við séum að fara rúlla yfir þennan leik. Við vorum klaufar, að mér fannst, í fyrsta leiknum, og við hefðum mátt nýta okkur betur markvörsluna í fyrri hálfleik.

Sóknarleikurinn var því miður ekki nægilega góður en ég held að strákarnir séu búnir að hlaupa af sér hornin núna. Fyrsti leikurinn á stórmóti búinn, bæði hjá strákunum og Snorra Steini landsliðsþjálfara og ég held að við séum að fara hlaupa yfir þennan leik,“ bætti Hreimur Örn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert