Mig hefur aldrei langað jafn mikið til þess að drekka bjór

Þórveig Unnar Traustadóttir (þriðja frá vinstri) ásamt systrum sínum þremur, …
Þórveig Unnar Traustadóttir (þriðja frá vinstri) ásamt systrum sínum þremur, frá vinstri Ólöfu, Fanný og Aldeyu, og föður sínum Trausta Aðalsteinssyni á Hofbrähaus. mbl.is/Bjarni Helgason

„Ég er mjög spennt og peppuð fyrir þessum leik,“ sagði Þórveig Unnar Traustadóttir, Húsavíkurmær og stuðningsmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is á Hofbrähaus í München í Þýskalandi í dag.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München klukkan 19:30 en með sigri fer Ísland með tvö stig inn í milliriðlakeppnina.

„Það er komin smá þreyta í mann, ég skal alveg viðurkenna það, en á sama tíma er þetta ótrúlega gaman og það er frábær upplifun að vera hérna í München,“ sagði Þórveig.

Spáir tveggja marka sigri Íslands

Þórveig drekkur ekki bjór sem er eflaust frekar erfitt á Hofbrähaus þar sem bjórinn bókstaflega flæðir um staðinn.

„Mig hefur aldrei langað jafn mikið til þess að drekka bjór, eins og akkúrat núna, en því miður þá er það ekki að fara gerast. Annars geri ég fastlega ráð fyrir íslenskum sigri í kvöld og ég held að við séum að fara vinna þennan leik með tveggja marka mun,“ bætti Þórveig við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert