Hughes reiknar ekki með Heiðari

Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson. www.qpr.co.uk

Mark Hughes, knattspyrnustjóri QPR, telur ólíklegt að Heiðar Helguson taki þátt í tveimur síðustu leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vor eftir að nárameiðsli hans tóku sig upp að nýju á æfingu.

Heiðar var frá keppni í tvo mánuði en byrjaði að spila aftur í apríl. Hann gat ekki spilað um síðustu helgi.

„Við erum ekki vissir um hvort hann geti leilkið með okkur aftur á tímabilinu. Hann finnur fyrir dálitlum óþægindum þar sem aðgerðin var gerð á honum. En aðgerðin heppnaðist og þar sem Heiðar er eins og hann er var hann staðráðinn í að spila aftur á tímabilinu. Kannski var hann of snemma í því. Þetta lítur ekki út fyrir að vera alvarlegt en við verðum að fylgjast með því og vitum meira á næstu dögum," sagði Hughes við West London Sport.

QPR er í mikilli fallhættu fyrir tvær síðustu umferðirnar þar sem liðið mætir Stoke á heimavelli og Manchester City á útivelli. Þó Heiðar hafi aðeins náð að spila 16 leiki af 36 í deildinni í vetur er hann markahæsti leikmaður QPR með 8 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert