Schürrle kominn til Wolfsburg

André Schürrle, til vinstri, fagnar marki fyrir Chelsea.
André Schürrle, til vinstri, fagnar marki fyrir Chelsea. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn André Schürrle er orðinn leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi sem kaupir hann af enska félaginu Chelsea. Þetta var staðfest rétt í þessu en lokað var fyrir  félagaskipti í þýska fótboltanum núna klukkan 17.

Þýska félagið semur við hann til hálfs fimmta árs og greiðir fyrir hann 22 milljónir punda.

Schürrle var því aðeins hálft annað ár í röðum Chelsea sem keypti hann af Bayer Leverkusen í júní 2013 fyrir 18 milljónir punda. Hann spilaði 44 leiki með Lundúnaliðinu í úrvalsdeildinni og skoraði 11 mörk.

Schürrle, sem er 24 ára gamall, hefur leikið 42 landsleiki fyrir Þýskaland og skorað 17 mörk. Hann varð heimsmeistari með Þjóðverjum síðasta sumar, skoraði þá þrjú mörk í lokakeppninni í Brasilíu og lagði upp sigurmarkið fyrir Mario Götze í úrslitaleiknum gegn Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert