Wenger kennir óheppni um

Arsene Wenger á hliðarlínunni í kvöld.
Arsene Wenger á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var skiljanlega ekki sérstaklega sáttur eftir 2:1 ósigur heima fyrir gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Arsenal komst yfir með marki Joel Campbell en Wayne Routhledge og Ashley Williams tryggðu Swansea stigin þrjú. Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmarkið fyrir Williams í síðari hálfleik.

„Mér finnst við hafa verið virkilega óheppnir með færin okkar á meðan þeir áttu tvö skot á markið og skoruðu tvö mörk. Við verðum hins vegar að koma sterkir til baka,“ sagði Wenger.

Hann staðfesti jafnframt að tékkneski markvörðurinn Petr Cech hefði meiðst, en Cech fór fram í lokin og reyndi að valda usla í teig Swansea eftir fast leikatriði. Hann meiddist hins vegar eftir að hafa hlaupið til baka í markið.

„Hann meiddist og verður örugglega ekki með gegn Tottenham um helgina,“ sagði Wenger, sem mun því að öllum líkindum tefla David Ospina fram í grannaslagnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert