„Myndi aldrei svíkja Manchester United“

Diego Forlán í leik með úrúgvæska landsliðinu.
Diego Forlán í leik með úrúgvæska landsliðinu. DANIEL GARCIA

Diego Forlán, fyrrverandi leikmaður Manchester United á Englandi, fékk nokkur tilboð frá félögum í ensku úrvalsdeildinni í sumar en ákvað að hafna þeim. Hann myndi aðeins snúa aftur til Englands til þess að spila með United.

Úrúgvæski framherjinn eyddi tveimur árum hjá United þar sem hann skoraði 10 mörk í 63 leikjum en eftirminnilegustu mörkin voru í 2:1 sigri á Liverpool árið 2002 er hann skoraði bæði mörkin á Anfield.

Hann hefur leikið með félögum á borð við Villarreal, Internazionale og Atletico Madrid en nú leikur hann með Mumbai City á Indlandi. Hann fékk fjölmörg tilboð um að koma og spila í ensku úrvalsdeildinni í sumar en hafnaði þeim af virðingu við United.

„Ég fékk tilboð um að spila á Englandi í sumar og síðasta sumar en ákvað að hafna því. Eina liðið sem ég mun spila með er Manchester United,“ sagði Forlán.

„Ef Zlatan Ibrahimovic, Wayne Rooney, Anthony Martial og Marcus Rashford væru meiddir myndi ég glaður koma á neyðarláni og spila fyrir félagið. Ég myndi jafnvel spila á útivelli gegn Liverpool og skora eitt eða tvö mörk áður en þeir myndu snúa aftur úr meiðslum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert