„Svona hlutir gerast“

Klopp fylgdist með sínum mönnum í dag.
Klopp fylgdist með sínum mönnum í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, bar sig ágætlega eftir 4:3-tap hans manna gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Liverpool var 3:1 yfir um miðjan seinni hálfleikinn en glutraði forskotinu niður undir lok leiksins.

„Ég verð að byrja á því að segja að Bournemouth átti sigurinn skilið. Þeir börðust vel og við gáfum þeim leikinn. Við opnuðum dyrnar fyrir þeim og þeir skoruðu falleg mörk,“ sagði Klopp eftir leikinn í dag.

Honum fannst liðsmenn Liverpool of staðir í seinni hálfleiknum. „Við gáfum leikinn frá okkur vegna þess að við hættum að spila okkar leik,“ sagði Þjóðverjinn.

„Ef við lærum af þessu þá verður þetta allt í lagi. Þegar staðan er 2:0 eða 3:1 er leiknum ekki lokið en við köstuðum þessu frá okkur. Við létum þá fá boltann. Svona hlutir gerast,“ sagði Klopp að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert