Leeds vann sjö marka spennutrylli

Crysencio Summerville skoraði tvívegis fyrir Leeds United í kvöld.
Crysencio Summerville skoraði tvívegis fyrir Leeds United í kvöld. AFP/Ben Stansall

Leeds United kom sér upp í annað sæti ensku B-deildarinnar í knattspyrnu karla með því að leggja Middlesbrough að velli, 4:3, í háspennuleik í Middlesbrough í kvöld.

Leeds er með 90 stig, einu stigi á eftir toppliði Leicester City og einu fyrir ofan Ipswich Town í þriðja sætinu, en þau tvö síðarnefndu eiga bæði leik til góða.

Tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeildina.

Fjörið í kvöld hófst strax á sjöundu mínútu þegar Isaiah Jones kom Middlesbrough í forystu.

Crysencio Summerville jafnaði metin skömmu síðar, á 14. mínútu, með marki úr vítaspyrnu áður en Patrick Bamford sneri taflinu við fjórum mínútum síðar gegn sínum gömlu félögum.

Eftir hálftíma leik jafnaði Emmanuel Latte Lath metin fyrir Middlesbrough.

Wilfried Gnonto kom Leeds í forystu að nýju skömmu fyrir leikhlé og staðan var 3:2 í hálfleik.

Eftir rúmlega klukkutíma leik skoraði Summerville annað mark sitt og fjórða mark Leeds og staðan var orðin 4:2.

Þremur mínútum fyrir leikslok minnkaði Middlesbrough muninn er Latte Lath skoraði annað mark sitt en nær komust heimamenn ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka