Berjast Arsenal og City aftur um leikmann?

Bruno Guimaraes, miðjumaður Newcastle.
Bruno Guimaraes, miðjumaður Newcastle. AFP/Andy Buchanan

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Bruno Guimaraes, miðjumaður Newcastle, er eftirsóttur en Arsenal og Manchester City eru sögð hafa áhuga á leikmanninum. 

Enskir miðlar greina frá en Guimaraes gekk til liðs við Newcastle í janúar 2022 og hefur síðan leikið 101 leik fyrir félagið. 

Brasilíumaðurinn er með klásúlu í samningi sínum þar sem að honum er frjálst að ræða við önnur lið bjóði þau í kringum 100 milljónir punda í hann. 

Enskir miðlar eru þó á því að Newcastle sé tilbúið að ræða við félög fyrir minni upphæð, eða í kringum 90 milljónir punda. 

Kepptust um Rice

Arsenal og Manchester City voru í miklu kapphlaupi um Englendinginn Declan Rice, sem þá var leikmaður West Ham, í fyrrasumar. 

Hann gekk til liðs við Arsenal á endanum fyrir 105 milljónir punda og er dýrasti enski leikmaður sögunnar. 

Arsenal er í fyrsta sæti deildarinnar með 74 stig, jafnmörg og Liverpool í öðru. City er í þriðja með 73 stig en á leik til góða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka