Jarno Trulli og Heikki Kovalainen munu keppa fyrir Lotus, eitt fjögurra nýrra liða formúlu-1 á næsta ári, að því er staðfest var á blaðamannafundi liðsins í Malasíu í dag.
Jafnframt var malasíski ökuþórinn Fairuz Fauzy ráðinn sem reynsluökumaður liðsins. Lotus-liðið hefur meðal annars ríkisstjórn Malasíu að bakhjarli og var um tíma búist við að annar ökumaður þess yrði malasískur, eða a.m.k. asískur.
Lotus er eitt fjögurra nýrra liða sem mætir til leiks í formúlu-1 á næsta ári. Hin eru Campos, US F1 og Manor.
Liðsstjórinn Tony Fernandes segir það markmið liðsins að verða best nýliðanna 2010. „Við setjum ekki markið mjög hátt, en viljum að minnsta kosti verða best nýju liðanna. Það sýnir að okkur er alvara, að við höfum ráðið tvo toppmenn sem ökuþóra,“ sagði hann.
Þetta verður í þriðja sinn á ferlinum sem Trulli gengur til samstarfs við tæknistjórann Mike Gascoyne. Þeir áttu samstarf áður hjá Renault og síðar hjá Toyota.
Heimamaðurinn Fauzy er 27 ára og segir það hápunkt keppnisferilsins að vera ráðinn til starfa hjá Lotus. Áður hefur hann gegnt starfi reynsluökuþórs hjá Spyker. Einnig hefur hann keppt í GP2-formúlunni og í A1GP. Í ár keppti hann svo í Renault 3.5 formúlunni svonefndu og varð í öðru sæti að stigum í mótaröðinni.