Ungur Breti keppir fyrir Caterham

Will Stevens keppir fyrir Caterham.
Will Stevens keppir fyrir Caterham.

Ungur Breti að nafni Will Stevens mun keppa fyrir Caterhamliðið í Abu Dhabi um helgina. Verður það frumraun hans í keppni í formúlu-1.

Hinum bílnum ekur Kamui Kobayashi sem keppt hefur í flestöllum mótum ársins fyrir Caterham, sem mætir í lokamót vertíðarinnar eftir að hafa setið hin tvö síðustu af sér vegna fjárhagsörðugleika.

Stevens er 23 ára og var liðsmaður ökumannaakademíu Caterham. Hann hefur tvisvar ekið bíl liðsins á æfingum á árinu. Hann hefur keppt í formúlu-Renault 3.5 og unnið þar fjölda móta. Hann skrifaði í síðustu viku undir samning um að keppa í lokamótinu en ekki var hægt að gera það opinbert fyrr en í dag meðan beðið var að ganga frá keppnisleyfi hans, svonefndu ofurskírteini sem er forsenda keppni í formúlu-1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert