Grátbað um að keppni yrði hætt

Felipe Massa segist hafa „öskrað“ í talstöðina og beðið um að kappakstrinum í Suzuka yrði hætt þar sem óakandi hafi verið í brautinni vegna úrhellisrigningar.

Keppni var á endanum hætt eftir að Jules Bianchi hjá Marussia flaug út úr sjöundu beygju á 43. hring og skall á kranabíl sem þar var staddur til að fjarlægja Sauberbíl Adrians Sutil sem flaug út úr brautinni a sama stað og ók á brautarvegginn hring áður.

Massa hraðaði sér á spítalann þangað sem Bianchi var fluttur og sagði hugsanir sínar fyrst og fremst hjá franska ökumanninum en þeim er vel til vina frá Ferraridögum sínum.

Massa segist hafa verið á því að stöðva hefði átt keppni fyrr. „Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á  hvað kom fyrir Jules. Það veldur mér þungum áhyggjum að heyra að hann hafi skollið á kranabílnum. Að mínu mati var keppninni hleypt of snemma af stað í byrjun því ekki var enn akandi í brautinni. Af sömu sökum var keppninni hætt of seint,“ segir Massa.

„Ég var öskrandi og æpandi í talstöðinni fimm hringjum fyrr því það var alltof mikið vatn á brautinni. Aðstæður voru hættulegar og þeir voru of lengi að taka af skarið. Svo varð árekstur í lokin eins og þið sáuð og . . . ég þarf að vita hvað kom fyrir Jules,“ bætti Massa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert