Þróunaraksturinn verður ekki auðveldur

Alonso og Ron Dennis liðsstjóri McLaren ásamt fulltrúa Honda er …
Alonso og Ron Dennis liðsstjóri McLaren ásamt fulltrúa Honda er skýrt var frá ráðningu Alonso til McLaren.

Fernando Alonso segir að þróunarakstur McLarenliðsins fyrir komandi keppnistíð verði ekki dans á rósum. Í bílum þess verða Hondavélar í stað Mercedes áður.

Vélsmiðir Mercedes, Renault og Ferrari hafa allir eins árs reynslu af nýju forþjöppuðu vélunum sem komu til skjalanna í fyrra en Honda á eftir að frumaka vél sinni og fá á hana reynslu.

Vegna þessa segist Alonso vilja læra sem mest um McLaren-Honda pakkann á vetraræfingunum.

„Fyrsta markmiðið er að öðlast hámarks skilning á bílnum við reynsluaksturinn, skilja pakkann í heild og ná sem mestri afkastagetu út úr honum,“ sagði Alonso í dag. „Eigi verður það létt verk og vandræðalaust, en við erum undirbúnir undir það. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við einbeitum okkur fyrst og fremst að bílþróuninni.

Sögulega séð er McLaren þekkt fyrir þá færni að þróa fljótt uppfærslur í bíla sína og þróa kraftmikla keppnisbíla,“ sagði Alonso.Hann mun frumaka 2015-bílnum í Jerez á Spáni á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert