Manor sýnir krók á móti bragði

Útlit er nú fyrir að Marussia mæti til keppni þrátt …
Útlit er nú fyrir að Marussia mæti til keppni þrátt fyrir allt og þá undir merkjum móðurfélagsins, Manor.

Manor, sem keppti undir merkjum Marussia í formúlu-1 undanfarin ár, hefur tilkynnt að það ætli að mæta til leiks undir eigin merkjum á komandi keppnistíð.

Með þessu sýnir Manor krók á móti því bragði Force India að reyna útiloka liðið frá keppni með því að beita neitunarvaldi gegn þátttöku Marussia á 2014-bílum í ár.

Skiptaráðandi hefur staðfest að Marussia muni koma út úr skiptameðferð 19. febúar og verið sé að undirbúa þátttöku í formúlu-1 í ár, væntanlega undir merkjum móðurfélagsins, Manor.

Manor hefur átt auðvelt með að verða sér úti um reyndan mannskap vegna lokunar Marussia, Caterham og fólksfækkunar vegna niðurskurðar hjá öðrum keppnisliðum.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur komið til móts við Manor með því að fresta því að birta endanlegan keppendalista ársins. 

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að uppfylla reglur og þann ramma sem okkur hefur verið settur til að snúa aftur til keppni í ár. Við viljum bara keppa,“ segir talsmaður Manor, sem þegar hefur greitt þátttökugjöld ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert