Merhi líklega á útleið

Roberto Merhi í bílskúrareininni í Sjanghæ í Kína.
Roberto Merhi í bílskúrareininni í Sjanghæ í Kína. mbl.is/afp

Spænski ökumaðurinn Roberto Merhi segir að framtíð sín í formúlu-1 sé hulin ráðgáta og geti svo farið að hann missi starfið hjá Manor Marussia eftir næsta kappakstur, heimamót hans í Barcelona.

Merhi er á gálgafrest því hann var eiginlega bara ráðinn til að keppa uns heppilegur ökumaður sem borgar fyrir sætið finnst. Af þessum sökum hefur hann ákveðið að hefja keppni í formúlu Renault 3.5 sem hefst á Spáni um helgina.

„Ég hef enga hugmynd um hvað við tekur eftir Spánarkappaksturinn. Við verðum bara að bíða og sjá,“ segir hann um framtíð sína í formúlu-1 við blaðið El Confidencial.

Viðræður munu hafa átt sér stað milli umboðsmanns Giedo van der Garde og stjórnenda Manor undanfarið en niðurstaða hefur ekki fengist í þær.

Merhi var áberandi lengur í ferðum en liðsfélaginn Will Stevens í Barein en sá síðarnefndi er ráðinn hjá Manor út vertíðina. Hann gefur til kynna að bílarnir séu ekki eins. „Já, það er munur á bílunum,“ segir hann í samtalinu og segir sinn bíl vanta á að vera eins öflugur og bíll Stevens.

Merhi segir að margt hafi komið sér á óvart í formúlu-1. „Sem stendur er eins og það séu fjögur getustig, þetta sé fjórar keppnir. Gríðarlegur munur er milli véla, vængpressu og rásfestu. Í kappakstrinum ver maður heilmiklum tíma, og jafnvel á æfingum líka, að eiga við allar aðgerðirnar á stýrinu. Það er líka skrítið, þetta er formúla-1, að maður skuli allan tímann aka án þess að reyna um of á dekkin.“

Merhi segir að gagnstætt þessu megi sækja mun harðar á bílunum í Formula Renault 3.5. „Á þeim bíl má sækja miklu meira. Bílarnir í formúlu-1 eru með átta gíra og miklu fleiri hestafla vélar. En þeir eru svo til eins og Renault 3.5 í beygjum og jafnvel slappari,“ bætir hann við.

Loks segir hann andrúmsloftið í bílskúrareininni misjafnt. „Í formúlu-1 mæta menn til leiks, sinna vinnunni og fara síðan burt. Það er ólíkt körtum eða öðrum keppnisflokkum þar sem allt er miklu meira eins og ein stór fjölskylda. Sumir líta á formúlu-1 bar sem starfsvettvang.“ 

Roberto Merhi á ferð á bíl Manor Marussia í Barein.
Roberto Merhi á ferð á bíl Manor Marussia í Barein. mbl.is/afp
Roberto Merhi í skottinu á Williamsbíl Felipe Massa í Barein.
Roberto Merhi í skottinu á Williamsbíl Felipe Massa í Barein. mbl.is/afp
Roberto Merhi stillir sér upp fyrir ljósmyndara á formúlumóti.
Roberto Merhi stillir sér upp fyrir ljósmyndara á formúlumóti. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert