Bianchi borinn til grafar

Núverandi og fyrrverandi ökumenn í formúlu-1 voru meðal fjölmargra er sóttu útför franska formúluökumannsins Jules Bianchi í Nice á Miðjarðarhafsströnd Frakklands í dag. Þúsundir stuðningsmanna Bianchi komu saman við torg í bænum og minntust hans þar.

Sainte Reparate dómkirkjan í Nice var sneisafull af útfarargestum og komust færri inn en vildu. Auk núverandi og fyrrverandi ökumanna var forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) við staddur og sonur hans Nicolas, sem var umboðsmaður Bianchi.

Meðal keppenda voru Alain Prost, fjórfaldur fyrrverandi heimsmeistari ökumanna í formúlu-1, Lewis Hamilton, Nico Rosberg, Sebastian Vettel, Felipe Massa, Romain Grosjean, Marcus Ericsson, Pastor Maldonado, Adrian Sutil, Nico Heidfeld og Jean-Erik Vergne.

Bianchi lést sl. föstudag, 17. júlí, en hann hafði legið í dái í níu mánuði frá óhappi sínu í japanska kappakstrnium í Suzuka 5. október í fyrrahaust. Hann er fyrsti ökumaðurinn í formúlu-1 til að bíða bana af völdum meiðsla í kappakstri frá því brasilíski ökumaðurinn Ayrton Senna lést í San Marínókappakstrinum í Imolabrautinni á Ítalíu 1. maí árið 1994.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert