Þjálfari Inter: Vanmetum ekki Stjörnuna

Byrjunarlið Inter í leiknum gegn PAOK í gær.
Byrjunarlið Inter í leiknum gegn PAOK í gær. Ljósmynd/www.inter.it

„Við verðum að vera mjög vel einbeittir og vanmeta ekki andstæðinga okkar. Það er aldrei auðvelt að spila á útivelli,“ segir Walter Mazzarri þjálfari ítalska liðsins Inter Mílanó en Inter mætir Stjörnunni í Evrópudeildinni á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn í næstu viku.

Inter hitaði upp fyrir leikinn á móti Stjörnunni með því að gera markalaust jafntefli gegn gríska liðinu PAOK í æfingaleik gær en á dögunum beið Inter lægri hlut fyrir þýska liðinu Frankfurt, 3:1.

„Þessir æfingaleikir hafa verið okkur mjög mikilvægir en það er alveg ljóst að við munum ekki vanmeta Íslendinganna í næsta leik okkar. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að ná góðum úrslitum á Íslandi svo við getum mætt Stjörnunni án þess að vera áhyggjufullir á heimavelli okkar,“ sagði þjálfari Inter eftir leikinn við PAOK en Inter tefldi fram sínu sterkasta liði í leiknum í Grikklandi.

<strong>Byrjunarlið Inter í gærkvöld:</strong>

1 Handanovic, 23 Ranocchia, 5 Vidic, 5 Juan Jesus; 33 D'Ambrosio, 2 Jonathan, 90 M'Vila, 10 Kovacic, 55 Nagatomo; 88 Hernanes, 9 Icardi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert