„Hef haft auga á þessu meti“

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA bætti Íslandsmetið í 200 metra hlaupi innanhúss á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum í dag. Hann kom í mark á tímanum 21,64 sekúndum og bætti metið um 1/100 úr sekúndu. Átti hann von á þessu svona snemma tímabils?

„Ég hef haft auga á þessu meti svolítið lengi en ég bjóst ekki við að slá það á öðru mótinu mínu í ár,“ sagði Kolbeinn þegar mbl.is tók hann tali í dag, en auk þess að setja Íslandsmet þá bætti hann sinn eigin tíma töluvert.

Kolbeinn keppir í 400 metra hlaupi á morgun þar sem hann reynir að ná lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Prag í mars. Hann tók undir að þetta met gefi góð fyrirheit fyrir morgundaginn.

„Miðað við daginn í dag ætti þetta að ganga. Fyrir tveimur árum hljóp ég 48,03 og lágmarkið er 48,00. Svo þetta er þarna, og úti hef ég hlaupið oft undir þessum tíma svo maður verður bara að bíða og sjá. Vonandi smellur þetta saman á morgun,“ sagði Kolbeinn, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði, þar sem hann segist meðal annars búast við því besta frá Hafdísi Sigurðardóttur á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert