Vonum að Sigmundur Davíð sendi góða strauma

Linda Brá Sveinsdóttir lyftir Íslandsbikarnum 2015 sem fyrirliði Skautafélags Akureyrar.
Linda Brá Sveinsdóttir lyftir Íslandsbikarnum 2015 sem fyrirliði Skautafélags Akureyrar. mbl.is/Kristinn

„Það er óvenju stuttur tími sem við fáum núna á milli Íslandsmótsins og HM núna, en það er bara skemmtilegra. Þá er maður bara í „fílingnum“,“ sagði Linda Brá Sveinsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí, við Morgunblaðið í gær en liðið hélt í morgun af stað á heimsmeistaramótið á Spáni. Ísland leikur í B-riðli 2. deildar líkt og undanfarin ár, og er í riðli með Ástralíu, Slóveníu, Belgíu, Spáni og Mexíkó. Ástralía féll úr A-riðli í fyrra en Mexíkó vann sig upp í B-riðilinn. Hin þrjú liðin voru öll með Íslandi í riðli þegar mótið fór fram í Laugardalnum fyrir ári.

„Það er langt síðan við vorum með Ástralíu í riðli en þær voru að koma niður úr A-riðli og við gerum ráð fyrir að þær hafi sterkt lið. Mexíkó-liðið höfum við aldrei séð spila og vitum því lítið um það, og raunar veit maður hreinlega lítið um það hvernig þessi deild fer. Ég sé hins vegar fyrir mér að þetta verði jafnt,“ sagði Linda.

„Við höfum spilað á móti Belgum síðustu ár og haft betur gegn þeim. Við höfum líka spilað gegn Spáni og stefnum á að vinna þær núna þó að það hafi ekki gengið síðustu ár. Við eigum miklu meira erindi í þær en við höfum sýnt í síðustu leikjum, meðal annars 3:0-tapinu í fyrra. Slóvenska liðið er gríðarlega sterkt, að mínu mati sterkasta liðið í fyrra, og býr yfir rosalegri tækni og hraða. Við héldum vel í við þær í fyrra og ætlum að standa okkur enn betur núna. Ég hef mikla trú á okkar liði og held að við förum á þetta mót og gerum flotta hluti,“ sagði Linda. Hún segir enga þörf á að grafa einhverja stríðsöxi eftir Íslandsmeistaraeinvígi SA og Bjarnarins sem er nýlokið, með öruggum sigri SA. Landsliðið er að stærstum hluta skipað leikmönnum þessara tveggja liða.

Sjá allt viðtalið við Lindu Brá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert