Sigur á San Marínó í fyrsta leik

Kvennalandsliðið í blaki fór fer af stað á Ítalíu í …
Kvennalandsliðið í blaki fór fer af stað á Ítalíu í dag. Ljósmynd/heimasíða Blaksambands Íslands

Íslenska landsliðið í blaki kvenna vann landslið San Marínó  með þremur hrinum gegn einni í fyrsta leik sínum á Paqua Challenge- mótinu á Ítalíu í dag.  Eftir að hafa tapað fyrstu hrinunni, 25:20, tók íslenska liðið leikinn í sínar hendur.

Íslenska liðið jafnaði leikinn með sigri, 25:18, í annarri hrinu og komst yfir eftir að hafa unnið þriðju hrinu naumlega, 25:23. Í fjórðu hrinu var um einstefnu að ræða en hana vann íslenska liðið örugglega, 25:14. 

Á heimasíðu Blaksambands Íslands er m.a. eftirfarandi frásögn af leiknum: 

„Byrjunarlið Íslands í leiknum var skipað þeim Fríðu Sigurðardóttur, fyrirliða og Fjólu Rut Svavarsdóttur á miðjunni, Miglena Apostolova í uppspilinu og Hjördís Eiríksdóttir í Díó. Í kantstöðunum byrjuðu Karen Björg Gunnarsdóttir og María Rún Karlsdóttir sem spilaði sinn fyrsta A landsleik. Frelsingjar í leiknum voru Kristina Apostolova og Birta Björnsdóttir. 

Fyrsta hrinan byrjaði frábærlega fyrir Ísland og komst liðið 4-0. San Marino vaknaði strax við það og sótti á Ísland og jafnaði leikinn 7-7. Eftir það hafði San Marino yfirhöndina í hrinunni og vann að lokum 25-20. Daniele Capriotti hafði óbreytt lið á vellinum í annarri hrinunni nema skipti Ásthildi Gunnarsdóttur inn fyrir Maríu Rún. Jafnt var á flestum tölum þar til skildu leiðið í stöðunni 11-15, Íslandi í vil. Á þessum kafla spilaði Ísland frábært blak og landaði flottum sigri í hrinunni 25-18.

Þriðja hrinan byrjaði svipað og önnur hrinan en sterkar uppgjafir Ásthildar skiluðu íslenska liðinu forskoti 13-4. San Marino beit frá sér og nálgaðist Ísland en að lokum höfðum við betur með 25-23 sigri. Fjórða hrinan var eign Íslands frá upphafi. San Marino átti fá svör við sterkum varnarleik og hávarnir Fríðu og Fjólu voru frábærar. Rósborg Halldórsdóttir og Lilja Einarsdóttir komu inná í tvöfaldri skiptingu þjálfarans í annarri hrinunni og í þeirri þriðju komu Rósborg og María Rún inná með sama hætti. Í lok leiksins kom Hanna María Friðriksdóttir inná í díóstöðuna en fjórða hrinan endaði 25-14, Íslandi í vil.

Íslenska liðið spilaði vel í dag og þjálfarinn ánægður með gang mála í ferðinni hingað til. Hópurinn á æfingu seinni partinn í dag og í fyrramálið heldur U18 liðið til annarrar borgar til að leika í Easter Volley mótinu næstu þrjá daga. A lið Íslands leikur sinn annan leiki í Pasqua Challange við lið í B2 deildinni hér á Ítalíu, Sacrata Civitanova en leikurinn er á dagskrá kl. 18.00 (14 að íslenskum tíma).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert