Gunnar Nelson sigraði Tumenov

Gunnar Nelson hafði betur gegn Albert Tumenov.
Gunnar Nelson hafði betur gegn Albert Tumenov. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnar Nelson, bardagakappi í Mjölni, sigraði Albert Tumenov á UFC Fight Night 87 í Rotterdam í Hollandi í kvöld. Gunnar vann með uppgjafartaki í 2. lotu.

Eftirvæntingin var mikil eftir þessum bardaga en Gunnar tapaði síðasta bardaga í UFC-deildinni gegn Demian Maia og var hann staðráðinn í því að bæta upp fyrir það í kvöld.

Hann gerði það svo sannarlega en hann eignaði sér 1. lotu með góðum höggum. Hann náði Tumenov niður í gólf um miðja fyrstu lotu og tókst að halda honum þar í dágóða stund.

Hann hélt svo uppteknum hætti í 2. lotu sem endaði með því að hann kláraði Tumenov með uppgjafartaki.

Þetta var sjötti sigur Gunnars í UFC en búist er við því að hann komist aftur inn á topplistann í veltivigt í deildinni. Hann var dottinn af listanum en öruggur sigur í kvöld ætti að koma honum aftur inn á hann.

Þetta var aðeins annað tap Tumenov í UFC og þriðja tap hans á MMA-ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert