„Held ég hafi fengið mér fjórfaldan espresso“

Arna Stefanía á smáþjóðaleikunum 2015
Arna Stefanía á smáþjóðaleikunum 2015 KRISTINN INGVARSSON

Arna Stefanía Guðmundsdóttir náði frábærum árangri í undankeppni 400 metra grindahlaups kvenna á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem haldið er í Amsterdam, Hollandi. Hún var næstefst í sínum riðli og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum. 

Fyrirkomulagið er þannig að tveir efstu keppendurnir í hverjum riðli eru öruggir áfram og síðan sex fljótustu af þeim sem eftir standa. Arna hljóp vegalengdina á 57,14 sekúndum, sem er um hálfrar sekúndu bæting á persónulegu meti hennar sem var 57,60 sekúndur fyrir mótið. 

Undanúrslitin fara fram annað kvöld, laugardagskvöld, klukkan 18:20. Þá verður keppt í þremur riðlum sem hver hefur átta keppendur. Til að komast í úrslitin þarf Arna að vera önnur af efstu tveimur í sínum riðli eða önnur tveggja hraðskreiðustu af þeim sem eftir standa.

Markmiðið að fara undir 57 sekúndur

„Ég vaknaði ekkert alltof fersk og var með smááhyggjur. Ég held að ég hafi fengið mér fjórfaldan espresso og Heiða var orðin dálítið stressuð að ég væri að drekka of mikið kaffi. En svo þegar ég byrjaði að hita upp fann ég að ég væri í góðu standi og að ég hefði engu að tapa þannig að ég ákvað að hlaupa eins vel og ég gat.

Það getur allt gerst í þessum undanúrslitum. Fyrir mitt leyti þá langar mig þvílíkt að fara undir 57 sekúndur, bæta mig ennþá meira og sýna úr hverju ég er gerð. Ég er búin að hlaupa vel í sumar og hausinn er á réttum stað. Að fá gott hlaup á morgun væri frábært.“

Nán­ar er rætt við Örnu Stefaníu og fjallað um EM í frjáls­um í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert