Ekki alveg eins langt og ég vildi

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. mbl.is/Kristinn

„Spjótið fór ekki alveg eins langt og ég vildi og bjóst við í dag en aðstæðurnar voru nú ekki alveg þær bestu heldur og allar stelpurnar voru að ströggla,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að hún hafnaði í þriðja sæti í spjótkasti á Riga Cup-mótinu, alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Lettlandi. Hún kastaði lengst 58,30 metra strax í fyrstu umferð.

Ásdís var fyrst eftir fyrstu umferðina, en kastsería hennar fór svo lækkandi það sem eftir lifði keppninnar. Eftir bronskastið kastaði hún 56,73 metra, 56,04 metra, 55,84 metra og 55,42 metra, en eitt kast hennar var ógilt. Íslandsmet Ásdísar er 62,77 metrar.

Eda Tugsuz frá Tyrklandi fékk gullið en hún kastaði lengst 63,83 metra. Önnur var Anete Koxina frá Lettlandi með 59,07 metra.

Ásdís hefur lengst kastað spjótinu 59,95 metra á þessu ári en það átti sér stað á móti í Zürich á dögunum. Einnig kastaði hún yfir 59 metra á Vetrarkastmóti Frjálsíþróttasambands Evrópu í Las Palmas í mars.

„Ég hef verið í frekar þungum æfingum og létti ekki mikið æfingarnar fyrir þetta mót. Ég fann vel fyrir því í dag þar sem líkaminn var ekki alveg sá ferskasti. En ég er í hörkuformi og mun betri en nokkurn tímann svo ég hlakka bara til sumarsins. Nú mun ég taka því rólega fram að keppni á Smáþjóðaleikunum í San Marínó á þriðjudaginn svo vonandi verð ég ferskari þar og fæ betri aðstæður svo ég geti sýnt hvað í mér býr,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert