Þetta gerist ekki mikið betra

Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta gerist ekki mikið betra," sagði hæstánægð Ásdís Hjálmsdóttir í samtali við mbl.is í kvöld. Ásdís tryggði sér sæti í úrslitum í spjótkasti á HM í London er hún kastaði 63,06 metra, sem er hennar besta kast á stórmóti á ferlinum og hennar næstbesta kast frá upphafi.

Lengsta kast Ásdísar kom í þriðju og síðustu umferðinni, en fyrstu tvö köst hennar voru undir 60 metrum og hefði það ekki nægt henni til að komast í úrslit. Hvað fór í gegnum hugann á Ásdísi fyrir síðasta kastið? 

„Eina sem ég var að hugsa um fyrir síðasta kastið voru tækniatriði sem ég ætlaði að framkvæma, það var það eina sem var í gangi í hausnum á mér og það gekk upp."

„Ég er oft sein niður með vinstri fótinn í síðasta skrefinu og við erum búin að vera að vinna mikið í því og það var það eina sem hefur vantað hjá mér. Ég er mjög létt á fótunum og mjög góð í efri búknum og við sáum að til þess að kasta lengra þyrfti ég að koma vinstri löppinni niður hraðar og ég náði að gera það í síðasta kastinu."

Ásdís segist ætla að njóta þess að kasta í úrslitunum, en hún segist hafa alla burði til að bæta Íslandsmetið og vonast hún til að komast á meðal átta efstu keppendanna. 

„Mín markmið í úrslitunum er að fara þangað og kasta vel. Ég get ekki stjórnað því hvað hinar gera, ég get bara stjórnað því sem ég sjálf er að gera. Ég ætla að fara inn og njóta þess að vera komin í úrslit og kasta vel."

„Ef ég kasta vel get ég bætt Íslandsmetið. Þetta var ekki fullkomið kast áðan og það var langt frá því að vera fullkomið kast þegar ég setti Íslandsmetið um daginn. Ég er aftur að kasta yfir 63 metra og ég á nóg inni. Það væri gaman að fá sex köst í úrslitunum. Allir frá þrjú köst og topp átta eftir þrjár umferðir fá þrjú köst í viðbót og það væri gaman að fá öll sex köstin," sagði Ásdís að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert