Endaði í lyftingum eftir ökklabrot

„Ég var alltaf í fimleikum þegar ég var yngri og lendi svo í því að ökklabrotna,“ sagði lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir í Dagmálum.

Eygló, sem er 22 ára gömul, stefnir á að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í París í sumar en hún varð Evrópumeistari unglinga í október árið 2022 í Albaníu og varð um leið fyrsti Íslendingurinn sem verður Evrópumeistari í lyftingum.

Snéri sér alfarið að lyftingum

Eygló æfði fimleika á sínum yngri árum en ákvað árið 2020 að snúa sér alfarið að lyftingum.

„Þá var ég sett í lyftingar til þess að halda mér við,“ sagði Eygló.

„Ólympískar lyftingar eru mikið notaðar í öðrum íþróttum sem sprengikraftsæfingar. Mér fannst þetta ógeðslega gaman og árið 2020 ákvað ég að snúa mér alfarið að lyftingunum,“ sagði Eygló meðal annars.

Viðtalið við Eygló í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka