Heimir: Vantar sjálfstraust í mitt lið

„Það vantaði að hafa meiri trú á hlutina. Trú á vörnina, það vantar greinilega smá sjálfstraust í mitt lið,“ sagði Heimir Örn Árnason þjálfari Akureyrar eftir tap liðsins gegn ÍR 32:28 í 8. umferð Olís-deildar karla.

„Við töpuðum þessu á 10 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Þá var engin vörn, og léleg sókn og hálf klaufalegt fannst mér,“ sagði Heimir.

„En ég var ánægður með karakterinn í síðari hálfleik. Við fengum þrjú tækifæri til að minnka í tvö. Með smá heppni hefðum við getað komist inn í þetta en við áttum það svo sem ekkert mikið skilið en það munaði litlu,“ sagði Heimir sem var ánægður með sína menn í síðari hálfleik.

„Já við reyndum nýja hluti og það gekk ágætlega. Þeir lentu í vandræðum í sókninni. Ég var allavega ánægður með mitt lið í seinni hálfleik og góða innkoma hjá honum Bjarka Sím í markinu. Ég var mjög ánægður með hann,“ sagði Heimir en Bjarki Símonarson varamarkvörður Akureyringa varði 10 skot í síðari hálfleik og átti góðan leik.

Heimir var ekki alveg nægilega sáttur við rauða spjaldið sem besti leikmaður Akureyrar fram að þeim tíma í leiknum, hornamaðurinn Kristján Jóhannsson fékk að líta á 33. mínútu leiksins þegar hann braut, að því er virtist óvart, en klaufalega á Sturlu Ásgeirssyni sem var sloppinn í gegn.

„Það er aldrei hægt að tjá sig um það eftir leik. Finnst manni það ekki alltaf þegar maður tapar. Ég var að spá í þessum rauðu spjöldum. Mér finnst helvíti hart þegar menn rekast óvart í hælana og fá rautt. Það er svo sem ekkert lykilatriði í leiknum. Mér fannst smá vítadómar lenda meira þeim megin en síðan horfði ég örugglega á þetta videó á morgun og þá var þetta bara 50/50,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert