Karen og Guðjón handboltafólk ársins

Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Ljósmynd/hsi.is

Stjórn Handknattleikssambands Íslands hefur útnefnt Karen Knútsdóttur og Guðjón Val Sigurðsson sem handknattleiksfólk ársins árið 2014.

Handknattleikskona ársins:

Karen Knútsdóttir, landsliðsfyrirliði, er 24 ára, fædd 4. Febrúar 1990. Karen kemur frá Fram og fer þaðan til Þýskalands í atvinnumennsku árið 2011 er hún gekk til liðs við HSG Blomberg-Lippe. Karen lék í Þýskalandi í 2 ár áður en hún gekk í raðir Sonderjyske í Danmörku sumarið 2013. Karen lék í eitt ár þar en nú í sumar gekk hún í raðir Nice í Frakklandi.

Karen hefur verið lykilleikmaður í íslenska kvennalandsliðinu um nokkurt skeið. Hún tók þátt þegar íslenska liðið spilaði sitt fyrsta stórmót á EM í Danmörku 2010, og síðan á HM í Brasilíu 2011 og EM í Serbíu 2012. Karen leikur stöðu leikstjórnanda. Karen spilaði sinn fyrsta A-landsleik 7. Júní 2008 gegn Rúmeníu.

Karen hefur spilað 70 A-landsleiki og skorað í þeim 245 mörk. Þá á hún 38 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði þar 158 mörk.

Handknattleiksmaður ársins:

Guðjón Valur Sigurðsson landsliðsfyrirliði er 35 ára, fæddur 8. ágúst 1979. Guðjón Valur er alinn upp í Gróttu og lék þar alla yngri flokkana. Guðjón Valur spilaði með KA á Akureyri um tíma og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2001 en hann fór í atvinnumennsku til Þýskalands það sumar.

Í Þýskalandi spilaði hann með Essen og varð Evrópumeistari með þeim árið 2005. Seinna það ár gekk hann til liðs við Gummersbach. Árið 2008 gekk hann til liðs við Rein-Neckar Löwen. Það var síðan tímabilið 2011-2012 sem hann söðlaði um og fór til Danmerkur og spilaði þar með AG Köbenhavn. Hann fór aftur til Þýskalands 2012 og gekk þá til liðs við Kiel. Hann varð Þýskalandsmeistari 2014. Guðjón Valur gekk til liðs við Barcelona núna í sumar. Hann er talinn vera einn af bestu vinstri hornamönnum heims.

Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 16. desember 1999 í Haarlem í Hollandi á móti Rúmeníu og skoraði þar 2 mörk. Þá hefur hann verið lykilmaður í landsliðinu um langt skeið. Guðjón Valur hefur leikið 302 A-landsleiki og skorað í þeim 1595 mörk. Þá lék hann 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 23 mörk

Guðjón Valur.
Guðjón Valur. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert