Afturelding einum sigri frá titlinum

Hörð barátta í dag. Janus Daði Smárason í baráttunni við …
Hörð barátta í dag. Janus Daði Smárason í baráttunni við Jóhann Gunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding er einum sigri frá að endurtaka leikinn frá 1999 og verða Íslandsmeistari karla í handbolta. Afturelding sigraði Íslandsmeistara Hauka 42:41 eftir tvíframlengdan leik í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði, í þriðja leik liðanna í dag og er nú 2:1 yfir í úrslitarimmunni.

Vinna þarf þrjá leiki til að landa Íslandsmeistaratitlinum. Liðin mætast aftur í Mosfellsbæ á mánudaginn, annan í Hvítasunnu, kl. 15.

Gríðarleg spenna var á Ásvöllum í dag eins og gefur að skilja þegar framlengja þarf í tvígang til að knýja fram úrslit. Davíð Svansson tryggði Aftureldingu sigurinn þegar hann varði skot á lokasekúndum annarrar framlengingar. 15 sekúndum fyrir leikslok hafði Gunnar Malmquist skoraði úr vinstra horninu og komið Aftureldingu marki yfir. Elías Már fór ansi framarlega til að trufla Guðna sem gaf þá niður í hornið og Gunnar nýtti sér plássið sem skapaðist. Ekki veit ég hvort Elías gleymdi sér eða hvort Haukar hafði einfaldlega frekar viljað fá á sig skot úr horni heldur en fyrir utan. 

Undir lok fyrri framlengingar var það Pétur Júníusson sem jafnaði fyrir Aftureldingu af línunni þegar 40 sekúndur voru eftir. Davíð varði þá einnig skot frá Haukum á lokasekúndum framlengingar. 

Undir lok venjulegs leiktíma voru það einnig Mosfellingar sem knúðu fram framlengingu en þá er óhætt að segja að meistararnir hafi kastað frá sér vinningsstöðu. Haukar voru þá tveimur mörkum yfir og með boltann þegar rúm mínúta var eftir. Þá fór af stað hröð og skrítin atburðarrás eftir að Haukar tóku leikhlé sem leiddi til þess að Afturelding jafnaði. Dæmdur var fótur á Brynjólf mjög fljótlega og Kristinn Bjarkason brunaði fram og í gegnum vörn Hauka. Minnkaði hann muninn þegar um 50 sekúndur voru eftir. Mosfellingar fóru langt fram völlinn og Janus keyrði strax í gegnum vörnina vinstra megin. Ekki alveg nægilega gott færi að mér sýndist og kannski reiknaði hann með því að brotið yrði á sér. Janus vippaði í þverslána á marki Aftureldingar. Mosfellingar höfðu því hálfa mínútu eða svo til að jafna. Sókninni lauk með því að Þrándur Gíslason jafnaði leikinn af línunni um tveimur sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma. 

Davíð Svansson varði alls 17 skot í marki Aftureldingar. Hann átti svolítið erfitt uppdráttar í síðari hálfleik venjulegs leiktíma. Þá var sóknarleikur Hauka virkilega góður. Þeir voru þolinmóðir, hreyfanlegir og biðu eftir réttu skotfærunum. Fyrir vikið kólnaði Davíð niður en hann kom aftur til skjalanna í framlengingunum báðum. Giedrius Morkunas varði 15/1 skot í marki Hauka og Grétar Ari Guðjónsson 1. 

Jóhann Gunnar Einarsson var markahæstur hjá Aftureldingu með 8/4 mörk en breiddin nýttist Mosfellingum vel. Varamaður Jóhanns, Birkir Benediktsson, kom til að mynda inn á og skoraði 5 mörk. Svipað má segja um vinstra hornið. Gunnar Malmquist skoraði 5 mörk og þar á meðal sigurmark leiksins. En þegar hann var ekki inn á skoraði Kristinn Bjarkason þrjú mörk í þremur skotum. Einnig má nefna að báðir línumennirnir knúðu fram sitt hvora framlenginguna, Þrándur Gíslason og Pétur Júníusson. Alls skoruðu níu leikmenn fyrir Aftureldingu. 

Adam Haukur Baumruk átti mögulega besta leik sinn á ferlinum til þessa, sérstaklega ef horft er til mikilvægis leiksins. Hann skoraði 15 mörk fyrir Hauka. Leikmenn sem skora annað eins gera oft slatta úr vítum eða hraðaupphlaupum en Adam skoraði svo gott sem öll sín mörk fyrir utan punktalínu. Ef til vill örfá eftir gegnumbrot. Fátt virðist bíta á Hákon Daða Styrmisson hvað varðar spennu í úrslitakeppninni. Hann skoraði 8/4 mörk og nýtti öll vítaköst Hauka. Þá var Jón Þorbjörn mjög drjúgur með 7 mörk á línunni. Mosfellingar héldu betur aftur af Janusi Daða Smárasyni en í síðasta leik en hann var þó mjög hættulegur og stjórnaði sóknarleik Hauka vel. 

Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu með boltann í leiknum í dag.
Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Aftureldingarmaðurinn Mikk Pinnonen með boltann í leiknum í dag.
Aftureldingarmaðurinn Mikk Pinnonen með boltann í leiknum í dag.
Haukar 41:42 Afturelding opna loka
80. mín. Leikurinn stöðvaður. 25 sek eftir. Gólfið þurrkað. Afturelding í sókn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert