Förum fullir sjálfstrausts í Mosfellsbæinn

Anton Rúnarsson var markahæsti leikmaður Vals í sigri liðsins gegn …
Anton Rúnarsson var markahæsti leikmaður Vals í sigri liðsins gegn Akureyri í dag. Eggert Jóhannesson

„Þetta eru mjög kærkomin stig. Við byrjuðum mjög vel í þessum leik og komumst fimm mörkum yfir. Þá fórum við að slaka of mikið á og það má ekki gegn jafn sterku liði og Akureyri hefur á að skipa. Þetta hafðist hins vegar í lokin og það er gott að ná að halda sigurgöngunni áfram,“ sagði Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 24:22 sigur liðsins gegn Akureyri í Olísdeild karla í handbolta dag. 

Eftir að hafa beðið ósigur í fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni í upphafi leiktíðarinnar hefur Valur nú borið sigur úr býtum í fimm leikjum í röð. Anton segir að það hafi ekki verið neitt stress í herbúðum Vals þrátt fyrir erfiða byrjun.

„Það vantaði nokkra lykilleikmenn í upphafi leiktíðarinnar og af þeim sökum var óöryggi í leik liðsins. Við vorum ekki búnir að slípa liðið nógu vel saman. Liðið er hins vegar að smella saman og við erum á miklu skriði. Við vissum alltaf að liðið ætti heima í toppbaráttu og við erum að sanna það með spilamennsku okkar undanfarið,“ sagði Anton um spilamennsku Vals í síðustu leikjum.

Anton Rúnarsson var markahæsti leikmaður Vals í leiknum með sex mörk auk þess að mata æskuvin sinn Orra Frey Gíslason með glæsilegum línusendingum sem Orri Freyr skilaði síðan í netið.

„Við Orri Freyr höfum spilað saman síðan við vorum sex ára og þekkjum hvorn annan út og inn. Við notum alltaf sama bragðið, en það er erfitt að koma í veg fyrir þetta þar sem við erum orðnir vel rútíneraðir. Þetta er öflugt vopn sem við höfum beitt upp alla yngri flokkana og það er gaman að þetta gekk vel upp að þessu sinni,“ sagði Anton um samvinnu sína með Orra Frey.

Valur er nú fjórum stigum á eftir Aftureldingu sem trónir á toppi deildarinnar, en liðin mætast í næstu umferð. Anton segir markmiðið að sækja sigur í Mosfellsbæinn og minnka forskot Aftureldingar í tvö stig.

„Það er mikið sjálfstraust í liðnu og við erum að fara í Mosfellsbæinn til þess að spila til sigurs. Okkur finnst við klárlega eiga heima í þessari toppbaráttu og við ætlum að sýna það gegn Aftureldingu í næstu umferð. Bæði lið eru á sigurbraut og þetta verður spennandi og skemmtileg viðureign,“ sagið Anton um framhaldið hjá Val. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert