Ánægður eftir 20. sigurinn í röð

Ágúst Jóhannsson á hliðarlínunni í kvöld.
Ágúst Jóhannsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals þekkir fátt annað en að sigra þessa dagana en með stórsigri á ÍBV í kvöld, 34:23, vann Valsliðið sinn 20. leik í röð í deild og bikar.

Það er frábært afrek en lið ÍBV vann einnig 20 leiki í röð á síðustu leiktíð. Valskonur geta haldið sigurgöngunni áfram og tryggt sig inn í úrslitaeinvígið með sigri á ÍBV eftir helgi.

„Mér fannst við spila feykilega vel í dag, varnarleikurinn góður og við með hörkumarkvörslu þar sem báðir markverðirnir okkar vörðu mjög vel. Við náðum að keyra ágætlega á þær og gerum fáa tæknifeila frammi, við vorum sannfærandi,“ sagði Ágúst en hann tók þessum mikla mun sem myndaðist í byrjun fagnandi, þrátt fyrir að áherslan hafi ekki verið á því á komast mörgum mörkum yfir snemma.

„Það var engin brjáluð áhersla á það, við segjum þó ekkert nei við því að geta komist yfir og það fljótt, við vitum það þó að það geta alltaf komið áhlaup frá ÍBV, við vitum að þær hafa ákveðin gæði og reynslu. Þær vantar aðeins upp á breiddina, þær eru þó með margar mjög ungar og efnilegar, við spiluðum þó mjög vel í dag og áttum þetta skilið.“

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valskonur höfðu unnið síðustu þrjá leiki gegn ÍBV með 6, 8 og 9 mörkum, af hverju hafa þær svona gott tak á ÍBV?

„Það er erfitt að segja til um það, við höfum verið að leika gríðarlega vel núna, náðum að nýta pásuna vel og höfum leikið vel. Við höfum rúllað þessu ágætlega, þetta er þó langt frá því að vera búið og við þurfum að vera í standi í næsta leik og nálgast þetta áfram eins.“

Hvernig heldur Ágúst liðinu niðri á jörðinni eftir tvo stóra sigra?

„Við erum ágætlega sjóuð í þessu og höfum farið í gegnum margar rimmur síðastliðin ár, við hvílum á morgun, æfum tvær góðar æfingar og mætum svo tilbúnar í leikinn á þriðjudaginn uppi í Valsheimili.“

Hversu mikilvægt er að sleppa leikjum 4 og 5 fyrir úrslitaeinvígið?

„Helst vil ég bara vinna næsta leik og að þetta sé búið, en það getur margt gerst í svona einvígjum á móti liði eins og ÍBV. Við þurfum að nálgast þetta af yfirvegun og auðmýkt og bera virðingu fyrir ÍBV liðinu. Við vitum að við þurfum að eiga góða frammistöðu til þess að klára leikinn á þriðjudaginn,“ sagði Ágúst að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert