Amma Suárez: Ráku hann heim eins og hund

Ferðamenn láta nú umvörpum mynda sig við þetta auglýsingaskilti á …
Ferðamenn láta nú umvörpum mynda sig við þetta auglýsingaskilti á Copacabana ströndinni í Rio de Janeiro. AFP

Lila Piriz Da Rosa, amma úrúgvæska knattspyrnumannsins Luis Suárez, segir að barnabarn sitt hafi verið rekið heim eins og hundur úr heimsmeistarakeppninni í Brasilíu.

„Allir vita hvað þeir ætluðu sér með Luis. Þeir ætluðu sér að koma honum út úr heimsmeistarakeppninni. Þeim tókst það fullkomlega - þeir ráku hann heim eins og hund," sagði Da Rosa við fréttamann Reuters í bænum Salto, fæðingarstað Suárez í Úrúgvæ í dag.

Suárez var í dag úrskurðaður í níu leikja bann með landsliði Úrúgvæ og bannað að spila með félagsliði sínu næstu fjóra mánuðina, fyrir að bíta Giorgio Chiellini, varnarmann Ítala, í leik þjóðanna á HM í fyrrakvöld.

„Þetta var ásetningur, þeir fylgdust með honum frá fyrstu mínútu, til að finna eitthvað á hann. Framkoman í hans garð er grimmdarleg. Ég er amma hans og elska strákinn minn afar heitt. Ekki spyrja mig að meiru, gerið það," sagði hún ennfremur við Reuters, en Suárez ólst upp í fátækt í Salto en flutti með foreldrum sínum til höfuðborgarinnar Montevideo, í 500 kílómetra fjarlægð, þegar hann var sex ára gamall.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert