Nístingssárt tap Íslands gegn Belgíu

Ingvar Þór Jónsson, Pétur Maack og Úlfar Jón Andrésson í …
Ingvar Þór Jónsson, Pétur Maack og Úlfar Jón Andrésson í varnarbaráttu í leiknum gegn Belgíu í Galati í dag. Ljósmynd/Sorin Pana

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí tapaði afar illa fyrir Belgíu, 9:3, í næstsíðasta leik sínum í A-riðli 2. deildar HM í Galati í Rúmeníu í dag. Tapið þýðir að nánast er hægt að fullyrða að möguleikinn á efsta sæti riðilsins er úti, en síðasti leikurinn við Serba á sunnudag gæti orðið úrslitaleikur um verðlaunasæti.

Íslenska liðið byrjaði leikinn afskaplega illa og lenti undir eftir fjögurra mínútna leik. Belgar bættu við tveimur mörkum og Ísland var 3:0 undir þegar aðeins stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Robin Hedström náði að klóra í bakkann fyrir Ísland með laglegu skoti þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta og staðan eftir hann 3:1 fyrir Belgíu.

Annar leikhluti var má segja stórfurðulegur. Ísland minnkaði muninn í 3:2 þegar Andri Már Mikaelsson skoraði með góðu skoti þegar Belgar tóku út refsingu, og aðeins 34 sekúndum síðar jafnaði Pétur Maack metin. Staðan 3:3 og leikurinn allt í einu galopinn.

Algjört hrun eftir jöfnunarmarkið

En þá hrundi allt hjá Íslandi. Rétt rúmri mínútu eftir jöfnunarmarkið komust Belgar yfir á ný og á síðustu átta mínútum leikhlutans bættu þeir við þremur mörkum – þar af tveimur með 23 sekúndna millibili. Algjört hrun í leik Íslands eftir mikla baráttu að jafna metin, en staðan fyrir þriðja og síðasta leikhlutann var 7:3 fyrir Belgíu.

Staðan versnaði svo enn frekar snemma í þriðja hluta, þegar Belgar fengu vítaskot sem þeir skoruðu úr framhjá Snorra Sigurbergssyni sem kom í mark Íslands fyrir Dennis Hedström þegar annar leikhluti var langt kominn. Staðan 8:3 fyrir Belgíu og enn stundarfjórðungur eftir af leiknum.

Pirringurinn var mikill hjá íslenska liðinu sem þurfti að reyna að halda haus út leikinn. En tæpum fimm mínútum fyrir leikslok bættu Belgar við níunda marki sínu þegar Vincent Morgan fullkomnaði þrennu sína þegar Belgar voru manni færri á ísnum. Það reyndist hins vegar síðasta mark leiksins og lokatölur 9:3 fyrir Belgíu.

Með sigrinum jafnaði Belgía lið Íslands að stigum, en bæði hafa 6 stig eins og Rúmenía sem mætir Ástralíu í lokaleiknum í kvöld. Ástralir hafa 8 stig á toppnum, Serbar hafa 5 stig og Spánverjar eru með 2 stig.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu frá Galati hér á mbl.is, en nánari umfjöllun og viðtöl verða í Morgunblaðinu á morgun og hér á vefnum síðar í dag.

Ísland 3:9 Belgía opna loka
60. mín. Ísland Textalýsing Það er ein mínúta eftir af leiknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert