Nýliðarnir skrifuðu nýjan kafla í söguna

Íslenska landsliðið hlýðir á þjóðsönginn eftir sigurinn gegn Rúmeníu í …
Íslenska landsliðið hlýðir á þjóðsönginn eftir sigurinn gegn Rúmeníu í gærkvöldi. Ljósmynd/Sorin Pana

Það voru sennilega aðeins 28 einstaklingar í borginni Galati í Rúmeníu sem trúðu því að Ísland gæti unnið heimamenn á HM í íshokkí fyrir leik þjóðanna í gærkvöld. Þessir 28 einstaklingar eru leikmenn, þjálfarar og fylgdarlið íslenska landsliðsins í Galati og einmitt þess vegna hefði sögulegur 2:0-sigur Íslands ekki getað verið sætari. En að gera það ofan á allt saman fyrir framan fleiri hundruð rúmenska stuðningsmenn getur ekki annað en margfaldað ánægjuna.

Þetta var fyrsti sigur Íslands á Rúmeníu frá upphafi og eftir því sem næst verður komist einnig í fyrsta sinn sem Ísland vinnur heimaþjóðina á HM, sem fram fer árlega. Fyrir mótið var mál margra að íslenska liðið ætti eftir að eiga í miklum vandræðum á þessu móti, að of margir nýliðar væru í hópnum í stað reyndra manna. En að spila nánast óaðfinnanlega gegn liðinu sem á að vera það langsterkasta í þessum riðli og að bæði mörkin voru skoruð af ungum nýliðum setur hlutina einfaldlega í nýtt samhengi.

Þeir Kristján Albert Kristinsson og Aron Knútsson skoruðu mörkin í öðrum og þriðja leikhluta eftir vel útfærðar skyndisóknir. Fyrstu mörk þeirra fyrir A-landsliðið á fyrsta stórmótinu, í fyrsta sigrinum á Rúmeníu í sögunni. Þetta er einfaldlega magnað handrit.

Nánar er fjallað um sigur Íslands á Rúmeníu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert