Spánverjar gerðu Íslandi greiða

Spánverjar fagna marki gegn Serbíu í Galati í dag.
Spánverjar fagna marki gegn Serbíu í Galati í dag. Ljósmynd/Sorin Pana

Spánverjar kræktu í sín fyrstu stig í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí sem fram fer í Galati í Rúmeníu. Spánn var rétt í þessu að vinna Serbíu í fyrsta leik dagsins, en eftir framlengdan leik höfðu Spánverjar betur 5:4.

Spánn þurfti nauðsynlega á sigri að halda og skoraði þrjú mörk í fyrsta leikhluta. Serbar skoruðu svo tvö mörk í þeim síðasta og jöfnuðu í 4:4 sem var staðan eftir venjulegan leiktíma. Það var svo eftir rúmlega þriggja mínútna leik í framlengingunni sem Spánverjar skoruðu gullmarkið sem réði úrslitum, 5:4.

Spánn er nú með tvö stig en er enn á botninum þegar einn leikur er eftir. Serbía er með 5 stig, en Serbar áttu möguleika á því að komast upp fyrir Ísland með sigri. Ísland og Serbía mætast í lokaumferðinni á þriðjudag í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um verðlaunasæti, ef önnur úrslit raðast þannig.

Ísland og Belgía eigast við núna klukkan 13.30 í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert