Nokkrar pöddur og kalt vatn í sturtunum

„Það voru þarna nokkrar pöddur og kalt vatn í sturtunum og svona, en við erum komnir á betra hótel núna,“ segir Pétur Maack, leikmaður UMFK Esju, en hótelið sem Esjumönnum var í fyrstu útvegað í Belgrad, vegna Evrópukeppni félagsliða sem hefst á morgun, stóðst engan veginn kröfur alþjóða íshokkísambandsins.

Esja keppir nú fyrst íslenskra félagsliða í Evrópukeppni og leikur við heimamenn í Rauðu stjörnunni á morgun, því næst Irbis-Skate Sofia frá Búlgaríu á laugardag og loks Tyrklandsmeisturum Zeytinburnu Belediyespor á sunnudag. Kosið var um hvaða félag fengi að vera gestgjafi í riðlinum, en gestgjöfum er meðal annars ætlað að útvega hótel fyrir andstæðingana og fá til þess styrk. Rauða stjarnan virðist hafa ætlað að spara sér pening með því að útvega ódýrt og lélegt hótel, en það létu Esjumenn ekki bjóða sér og fer nú vel um þá á öðru hóteli eins og Pétur segir.

Esja þreytir frumraun sína í Evrópukeppni á morgun kl. 17.30, gegn Rauðu stjörnunni, en leikið er í sömu skautahöll hér í Belgrad og Pétur hefur leikið í með íslenska landsliðinu, síðast árið 2014.

„Það er rosaleg stemning og spenningur í hópnum. Maður finnur það alveg í upphituninni utan íss að það er mikill spenningur í mannskapnum,“ segir Pétur.

Held að við munum standa okkur vel

„Mér líst bara nokkuð vel á þetta. Ég held að við munum standa okkur nokkuð vel. Ég veit að Serbarnir eru með nokkuð svipað lið og við, en ég veit minna um búlgarska og tyrkneska liðið. Búlgaría og Tyrkland eru þó að spila fyrir neðan okkur í deild á HM landsliða. Ég vona því og held að þau séu kannski aðeins lakari en við, en öll liðin eru með fullt af útlendingum sem hysja getustigið ansi mikið upp,“ segir Pétur, en Esja hefur einnig fengið til sín sterka erlenda leikmenn; Tékkana Jan Semorád og Petr Kubos.

„Þeir eru ansi góðir. Annar Tékkinn [Semorád] var að taka núna fyrstu æfinguna með okkur og hann er virkilega sterkur að því er mér sýnist. Hann hefur unnið tékknesku deildina tvisvar. Peter Kubos hefur svo verið með okkur í tvær vikur á Íslandi, er mikill reynslubolti og á einhverja 800 leiki í efstu deild Tékklands þar sem hann hefur þrívegis orðið meistari,“ segir Pétur, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála hjá liðinu í Evrópukeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka