Gaman að mæta mönnum sem maður er ekki með númerið hjá

„Þetta er mjög gott lið, en við hefðum alveg átt að vinna þetta. Það vantaði eitthvað lítið upp á,“ sagði Atli Snær Valdimarsson sem átti góðan leik í marki Esju þó að liðið yrði að sætta sig við 4:2-tap gegn Búlgaríumeisturum Irbis-Skate í Evrópukeppni félagsliða í Belgrad í dag.

Mbl.is tók þá Atla og Daníel Frey Jóhannsson, sem varði mark Esju í fyrsta leik mótsins gegn Rauðu stjörnunni, tali eftir leikinn í dag en þeir koma til með að mynda markvarðateymi Esju í vetur. Daníel fagnaði deildar- og Íslandsmeistaratitlinum með liðinu á síðustu leiktíð en Atli var að snúa heim eftir að hafa spilað í Bandaríkjunum síðasta vetur. Þeir voru sammála um að meiri hraða hefði þurft í Esjuliðið í dag og bentu á hve þunnskipaður hópurinn er:

„Við erum að spila á 17 mönnum hérna og tveir þeirra erum við markverðirnir. Ég er alla vega mjög ánægður með að við séum tveir. Ég hugsa að strákarnir myndu alveg þiggja eina línu í viðbót. Þrír leikir á þremur dögum er eitthvað sem við erum ekkert vanir heima, hvað þá gegn liðum á þessu tempói. Við erum mun betri en liðin heima, eða alla vega er aldrei legið á ykkur og við yfirspilaðir eins og hefur kannski gert hérna. Þetta eru mun erfiðari leikir fyrir okkur og varnarmennina en við erum vanir,“ sagði Daníel.

Að sama skapi má segja að leikirnir séu kannski skemmtilegri fyrir þá en þeir eiga að venjast heima á Íslandi, eða hvað?

„Algjörlega. Það er alltaf gaman þegar það er mikið að gera og mikið aksjón, frekar en að maður standi bara og geri ekki neitt. Þetta eru mjög góð lið og skemmtilegt að fá reynsluna af því að koma hérna út,“ sagði Atli, og Daníel tók undir:

„Klárlega. Það er gaman að spila ekki alltaf á móti sömu mönnum sem maður þekkir með fornafni og eftirnafni og er með símanúmerið hjá í símanum sínum. Þetta er mjög gaman.“

Nánar er rætt við markverðina í meðfylgjandi myndskeiði. Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert