Stór skörð höggvin en Ólafur Hrafn mætir

Ólafur Hrafn Björnsson var lykilmaður í liði Esju frá stofnun …
Ólafur Hrafn Björnsson var lykilmaður í liði Esju frá stofnun félagsins fyrir þremur árum og þar til að hann hélt í nám til Hollands í sumar. Hann verður með liðinu í Belgrad um helgina. mbl.is/Golli

Leikmenn UMFK Esju hefja leik á morgun í Evrópukeppni félagsliða hér í Belgrad, fyrstir íslenskra íshokkíliða. Nokkra leikmenn vantar þó í hópinn, þar á meðal atkvæðamesta sóknarmann síðasta Íslandsmóts.

Björn Róbert Sigurðarson, stigahæsti leikmaður síðasta tímabils með 27 mörk og 39 stoðsendingar, er ekki með Esjumönnum vegna anna í námi.

Annar landsliðsmaður, Andri Freyr Sverrisson, er nefbrotinn, Steindór Ingason glímir við axlarmeiðsli og Matthías Sigurðsson meiddist illa á úlnlið í leiknum við Björninn síðasta föstudag. Þeir Andri, Steindór og Matthías eru allir í Belgrad en munu ekki geta tekið þátt í leikjunum þremur; á morgun, laugardag og sunnudag. Hjalti Jóhannsson ferðaðist svo ekki með liðinu út.

Sú mikla bót er hins vegar í máli að Ólafur Hrafn Björnsson, sem var ásamt Birni Róberti markahæstur Esju í Hertz-deildinni síðasta vetur, verður með liðinu í Evrópuleikjunum. Ólafur Hrafn yfirgaf Esju í sumar og hélt í nám til Hollands en lét undan þrýstingi um að mæta til Belgrad og taka þátt.

Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála hjá liðinu þar til að mótinu lýkur á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka