Annað tap Esjumanna í Belgrad

Daniel Kolar og Jón Andri Óskarsson í baráttunni í leiknum …
Daniel Kolar og Jón Andri Óskarsson í baráttunni í leiknum við Rauðu stjörnuna í gær. Ljósmynd/Srdjan Stevanovic

Íslandsmeistarar Esju mættu Búlgaríumeisturum Irbis-Skate í nokkuð jöfnum leik í Belgrad í dag í öðrum leik sínum í Evrópukeppni félagsliða, en varð að lokum að sætta sig við 4:2-tap.

Þetta er annað tap Esju en liðið steinlá gegn Rauðu stjörnunni í gær, 6:1. Lokaleikur Esjumanna á mótinu er við Tyrklandsmeistara Zeytinburnu á morgun kl. 11.30 að íslenskum tíma, en ljóst er að liðið mun ekki komast áfram á næsta stig keppninnar því aðeins efsta lið riðilsins kemst þangað.

Eftir frekar jafnan en markalausan fyrsta leikhluta í dag þar sem bæði lið fengu þó sín færi var meira fjör í leiknum í öðrum leikhluta. Esjumenn fóru að sækja stíft þegar leið á hann og Búlgararnir misstu menn í refsiboxið, og loks kom Tékkinn Jan Semorád Esju yfir með marki í kjölfar dómarakasts. Semorád gekk nýverið í raðir Esju og tók sína fyrstu æfingu með liðinu hér í Belgrad á fimmtudaginn, en hann hefur orðið tékkneskur meistari í tvígang og er afar öflugur sóknarmaður.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Mark Semorád kom á 36. mínútu en áður en að öðrum leikhluta lauk tókst Irbis-mönnum að skora tvö mörk. Seinna markið var mikið kjaftshögg, rétt áður en leikhlutanum lauk, en Esja var þá manni fleiri.

Búlgaríumeistararnir komust svo í 3:1 á sjöttu mínútu lokaleikhlutans eftir slæm mistök Daniel Kolar við mark Esju. Íslandsmeistararnir minnkuðu muninn hins vegar strax í kjölfarið, manni fleiri, með marki Egils Þormóðssonar sem fylgdi á eftir skoti Péturs Maack.

Esjuliðið reyndi sem það gat jafna metin en í staðinn skoraði Irbis fjórða og síðasta mark sitt og var það auðvelt fyrir Martin Boyadjiev sem náði frákastinu eftir að Atli Snær Valdimarsson, sem varði oft á tíðum afar vel í leiknum, hafði varið skot utan af velli.

Leikmannahópur Esju: Atli Snær Valdimarsson (M), Daníel Freyr Jóhannsson (M), Andri Þór Guðlaugsson, Aron Knútsson, Daniel Kolar, Egill Þormóðsson, Einar Sveinn Guðnason, Gunnlaugur Guðmundsson, Jan Semorád, Jón Andri Óskarsson, Konstantyn Sharapov, Markús Darri Maack, Ólafur Hrafn Björnsson, Petr Kubos, Pétur Maack, Robbie Sigurðsson, Róbert Freyr Pálsson.

Irbis-Skate 4:2 Esja opna loka
60. mín. Irbis-Skate Textalýsing Egill Þormóðsson er valinn besti leikmaður Esju í leiknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert