Jón Arnór: Draumur að rætast

Jón Arnór Stefánsson vissi vart í hvorn fótinn hann ætti að stíga þegar blaðamaður tók hann tali nokkrum mínútum eftir að Ísland hafði lagt Breta að velli, 71:69, í Koparkassanum í Lundúnum, en sigurinn þýðir að Ísland er að öllum líkindum komið í lokakeppni Evrópukeppninnar.

„Maður veit ekki hversu glaður maður á að vera, en við ættum að vera komnir inn á Evrópumótið. Viðbrögðin hérna í lokin þegar allir hlupu inná, það þarf ekki fleiri orð um það," sagði Jón Arnór við mbl.is eftir leik, og blaðamaður getur vottað fyrir það að viðbrögðin voru engu lík. En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir íslenskan körfubolta?

„Þetta er alveg ótrúlegt. Það er draumur að rætast hjá okkur öllum. Við erum alltaf litla liðið að spila á móti einhverjum tröllum. Ég ætla ekki að grenja of mikið en við höfum barist í gegnum það og orðið betri með hverju árinu. Ég er svo ánægður með okkur alla að það hálfa væri ágætt," sagði Jón, sem var stigahæstur með 23 stig í leiknum í kvöld. Spennan var æsileg undir lokin sem virtist ekki hafa nein áhrif á Jón.

„Það er æðislegt, þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu og mér líður aldrei betur en í lokin á svona leikum. Þetta er augnablik sem maður týnist algjörlega í og það er æðislegt að upplifa það í körfuboltanum," sagði Jón Arnór Stefánsson, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert