Denver og New York unnu í nótt

Anthony Davis skýtur yfir Nikola Jokic í nótt
Anthony Davis skýtur yfir Nikola Jokic í nótt AFP/MATTHEW STOCKMAN

Denver Nuggets og New York Knicks komust í 1:0 í einvígum sínum í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt. NBA meistarar Denver tóku á móti Lebron James og félögum í Los Angeles Lakers.

Lakers komust í úrslitakeppnina í gegnum umspil og þykja ekki líklegir til afreka gegn serbneska risanum Nikola Jokic og hans mönnum í Denver. Lakers menn bitu þó frá sér og leiddu með þremur stigum í hálfleik 60:57.

Í síðari hálfleik hertu Denver tökin og þá sérstaklega á James sem náði ekki skoti á körfuna í síðari hálfleik fyrr en um 80 sekúndur voru eftir af leiknum. Nuggets sigruðu að lokum 114:103.

Anthony Davis skoraði 32 stig fyrir Lakers og tók 14 fráköst en Lebron James skoraði 27 stig og gaf 9 stoðsendingar. Nikola Jokic skoraði 32 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Denver en tveir aðrir leikmenn Denver voru með tvöfalda tvennu, þeir Aaron Gordon (12 stig, 11 fráköst) og Jamal Murray með 22 stig og 10 stoðsendingar.

Liðin mætast á nýjan leik aðfaranótt þriðjudags.

New York Knicks tók á móti Philadelpia 76ers í Madison Square Garden í fyrstu umferð Austurstrandarinnar. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 11:104.

Joel Embiid, verðmætasti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð, hefur ekki náð sér að fullu eftir liðþófaaðgerð sem hann gekk undir í febrúar en skoraði engu að síður 29 stig.

New York fengu óvænt 21 stig frá Miles McBride, þar af 13 í 3. leikhluta. McBride er varamaður skærustu stjörnu Knicks, Jalen Brunson, en átti óvenju góða innkomu í nótt. Brunson skoraði 22 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 7 fráköst.

Joel Embiid í Madison Square Garden í nótt
Joel Embiid í Madison Square Garden í nótt AFP/ELSA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka