Lygilegt tap stórliðsins

LeBron James með boltann í nótt, Jamal Murray sækir að …
LeBron James með boltann í nótt, Jamal Murray sækir að honum. AFP/Matthew Stockman

Los Angeles Lakers fór illa að ráði sínu í fjórða leikhluta gegn bandarísku NBA-meisturum Denver Nuggets í Denver í nótt. 

Denver vann leikinn að lokum, 101:99, en Jamal Murray skoraði sigurkörfuna á síðustu stundu. Eru meistarar Denver því með 2:0-forystu í einvígi liðanna í úrslitakeppni deildarinnar. Fjóra sigra þarf til að tryggja sér áfram. 

Lakers-liðið átti frábæra fyrstu tvo leikhluta gegn meisturunum og var yfir með 15 stigum í hálfleik, 59:44. 

Lakers fylgdi því eftir í upphafi þriðja leikhlutans og náði mest 22 stiga forskoti. Hins vegar snerist leikurinn þar við. Þá kom Denver-liðið til baka og var staðan jöfn er LeBron James var með boltann, lék á varnarmann og fór í þrist en klúðraði. 

Í næstu sókn skoraði Jamal Murray sigurkörfuna og tryggði meisturum Denver torsóttan sigur. 

LeBron James skoraði 26 stig, tók átta fráköst og gaf tólf stoðsendingar fyrir Lakers. Nikola Jokic skoraði 27 stig, tók 20 fráköst og gaf tíu stoðsendingar fyrir Denver. 

Cleveland og New York í góðum málum

Þá er New York Knicks komið í 2:0 í einvígi sínu gegn Philadelphia 76ers eftir sigur í New York í nótt, 104:101. 

Josh Hart var atkvæðamestur með 21 stig, 15 fráköst og þrjár stoðsendingar. Hjá Philadelphia átti Tyrese Maxey stórgóðan leik en hann skoraði 35 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. 

Cleveland Cavaliers er þá 2:0 yfir gegn Orlando Magic eftir sigur í Cleveland í nótt, 96:86. 

Jarret Allen átti frábæran leik fyrir Cleveland en hann skoraði 16 stig, tók 20 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Hjá Orlando skoraði Paolo Banchero 21 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka