Valsmenn einum sigri frá úrslitaeinvíginu

Veigar Páll Alexandersson sækir að körfu Vals í kvöld. Frank …
Veigar Páll Alexandersson sækir að körfu Vals í kvöld. Frank Aron Booker er til varnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðji leikur Vals og Njarðvíkur í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta fór fram á Hlíðarenda í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals 68:67. Valur er því 2:1 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaviðureignina gegn annaðhvort Keflavík eða Grindavík.

Liðin hittu afar illa fyrstu mínútur leiksins og var staðan 2:0 fyrir Njarðvík eftir þrjár mínútur af fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar leiddu allan fyrsta leikhlutann og komust mest sex stigum yfir í stöðunni 15:9. Valsmenn söxuðu á forskotið fyrir lok leikhlutans og var staðan 22:17 eftir fyrsta leikhluta.

Njarðvíkingar mættu sterkir inn í annan leikhlutann og juku muninn hægt og þétt framan af. Mestur varð munurinn níu stig í stöðunni 28:19.

Þá tóku Valsmenn við sér og minnkuðu muninn hægt og þétt og jöfnuðu að lokum metin í stöðunni 30:30 og komust síðan yfir í stöðunni 33:32. Njarðvík komst aftur yfir í stöðunni 35:33 en Valsmenn neituðu að gefast upp og komust aftur yfir í stöðunni 36:35. Eftir það leiddu Valsmenn þennan leikhluta og fóru inn í hálfleikinn með tveggja stiga forskot í stöðunni 40:38.

Justas Tamulis sækir að körfu Njarðvíkur í kvöld.
Justas Tamulis sækir að körfu Njarðvíkur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stigahæstur í liði Vals var Taiwo Badmus með 14 stig en í liði Njarðvíkur var Chaz Williams með átta stig. Kristófer Acox var með sjö fráköst fyrir Val í fyrri hálfleik en Dominykas Milka var með 11 fráköst fyrir Njarðvík.

Valsmenn byrjuðu 3. leikhlutann og leiddu allan tímann. Munurinn var lengst af 5-7 stig en Valsmenn náðu mest níu stiga forskoti í stöðunni 60:51. Þann mun náðu Njarðvíkingar að minnka í sjö stig fyrir lok leikhlutans og var staðan 60:53 þegar þriðja leikhluta lauk.

Fjórði leikhluti var ekki mikið fyrir augað og sáralítið skorað. Mario Matasovic setti þrist fyrir Njarðvík og staðan var 60:56. Þá setti Hjálmar niður vítaskot fyrir Val og staðan var 61:56. Þá tók við tveggja mínútna kafli þar sem hvorugu liðinu tókst að setja niður körfu. Njarðvík náði að minnka muninn í 63:62 og komast svo yfir í stöðunni 64:63.

Eftir þetta tók við háspennuleikur þó hann hafi ekki verið mikið fyrir augað. Liðin skiptust á að þvinga niður stig og þegar 23,4 sekúndur voru eftir var staðan 68:67 fyrir Val og Njarðvíkingar með boltann. Benedikt, þjálfari Njarðvíkur, tók þá leikhlé til að skipuleggja lokasókn Njarðvíkur.

Lokaskot Njarðvíkur tók Dwayne Lautier-Ogunleye og klikkaði hann á því. Lengra komust liðin ekki og vann Valur leikinn 68:67 og lið Njarðvíkur er komið upp við vegg í einvíginu.

Stigahæstur í liði Vals var Taiwo Badmus með 17 stig en Dwayne Lautier-Ogunleye var með 14 stig.

Næsti leikur liðanna er í Njarðvík en þá geta Valsmenn tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 68:67 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert