Ber ekki virðingu fyrir lyfjasvindlurum

Yang, Horton og Ítalínn Grabriele Detti brostu á verðlaunapallinum.
Yang, Horton og Ítalínn Grabriele Detti brostu á verðlaunapallinum. AFP

Forráðamenn kínverska sundsambandsins hafa krafist þess að fá afsökunarbeiðni eftir að ástralski ólympíumeistarinn Mack Horton kallaði kínverska sundmanninn Sun Yang „lyfjasvindlara“ (e. drug cheat).

Mikil spenna hafði byggst upp á milli Hortons og Yang fyrir 400 metra skriðsund karla á Ólympíuleikunum en úrslitin fóru fram á laugardag. Horton sagði fyrir úrslitin að hann hefði „engan tíma og bæri ekki virðingu fyrir lyfjasvindlurum.“

Yang varð ólympíumeistari í 400 metra skriðsundi í London fyrir fjórum árum. Hann féll á lyfjaprófi árið 2014, var dæmdur í þriggja mánaða keppnisbann og fékk eftir það aftur leyfi til keppni.

Horton sakaði Yang um að hafa viljandi reynt að skvetta á sig á æfingum. „Ég hunsaði hann enda hef ég ekki tíma og ber ekki virðingu fyrir lyfjasvindlurum.“

Eftir að hafa tryggt sér sigurinn útskýrði Horton ummæli sín frekar. „Ég kallaði hann lyfjasvindlara vegna þess að hann féll á lyfjaprófi. Ég er á móti íþróttamönnum sem falla á lyfjaprófum og eru enn að keppa.“

Kínverski sundþjálfarinn Xu Qi var síður en svo hrifinn af ummælum Hortons. „Við teljum að þessi óviðeigandi ummæli hans skaði samskipti kínverskra og ástralskra sundmanna. Hann skortir mannasiði og við krefjumst afsökunarbeiðni frá honum.“

Sjálfur sagðist Yang ekki þurfa að svara ummælum Hortons. „Ég hef sannað að ég er hreinn. Við þurfum ekki að hugsa um einhverja ástralska hugarleikfimi,“ sagði Yang sem er sigurviss fyrir 1.500 metra skriðsundið, þar sem þeir félagar munu líklega bítast um sigurinn:

„Ég er kóngurinn í 1.500 metrunum.“

Horton fagnaði sigrinum vel.
Horton fagnaði sigrinum vel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert