Yfirlýsingar milljarðamæringsins og vogunarsjóðsforstjórans Bills Ackman um fyrirtækið Herbalife frá því fyrr í dag virðast ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Gengi hlutabréfa í Herbalife hafa hækkað um rúmlega 25 prósent í dag.
Ackman sagðist ætla að koma upp um „ótrúleg svik“ fyrirtækisins og lofaði því að forráðamenn þess myndu grátbiðja um miskunn eftir að hann myndi tilkynna niðurstöður úr rannsókn sinni á næringarklúbbum Herbalife.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forstjórinn hótar Herbalife en fyrirtækið hefur ávallt neitað ásökunum Ackmans.
Stuttu eftir að Ackman tók til máls á kynningu sinni í New York í dag hófu gengi hlutabréfa í Herbalife að hækka. Fyrsta klukkutíma kynningarinnar höfðu hlutir fyrirtækisins hækkað um 8% og klukkustund síðar var hækkunin orðin 11%. Alls er hækkunin í dag rúmlega 25%, en enn er opið fyrir viðskipti í kauphöllinni í New York.
Hlutabréf í Herbalife lækkuðu um 11% á mánudag eftir að Ackman sagði að kynningin yrði sú mikilvægasta sem hann hefði flutt í lífi sínu. Svo virðist sem aðrir fjárfestar séu honum ósammála og því virðast skot hans að Herbalife hafa geigað.