Forstjóri Herbalife „er rándýr“

William Ackman er stofnandi vogunarsjóðsins Pershing Square
William Ackman er stofnandi vogunarsjóðsins Pershing Square AFP

Forstjóri Herbalife „er rándýr“, sagði milljarðamæringurinn og vogunarsjóðsstjórinn William Ackman, í ræðu sem hann flutti í gær, ræðu sem átti að knésetja Herbalife. Ackman, sem hefur lengi verið í stríði við fæðubótarefnarisann, varð þó ekki kápan úr því klæðinu því hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu í gær í kjölfar hótana hans um að fletta ofan af svikum þess og prettum.

Ackman flutti ræðu sína á Manhattan í New York. 400 manns voru viðstaddir, þeirra á meðal faðir hans. Ræðan var löng, yfir tveir klukkutímar. Er vel var liðið á ræðuna sagði hann Michael Johnson, forstjóra Herbalife, vera rándýr. Fljótlega fór hann að berjast við tárin. „Þetta er glæpafyrirtæki,“ sagði Ackman í tilfinningaþrunginni ræðu sinni og fullyrti að blekkingaleikurinn skaðaði sífellt fleiri. „Það er tímabært að loka þessu fyrirtæki.“

Skot hans geigaði

Í gærmorgun, eftir að Ackman hafði hótað að afhjúpa „ótrúleg svik“ Herbalife hófu hlutabréf í fyrirtækinu að hækka. Þau héldu áfram að hækka undir ræðu Ackmans og við lokun markaða höfðu þau hækkað um 25,5% - á einum degi. Það er met, bréfin hafa aldrei hækkað jafn mikið á einum degi.

Ackman hélt því m.a. fram í gær að Herbalife væri að kaupa bréf í sjálfu sér. Sérfræðingar á WallStreet sögðu hins vegar að skot Ackmans hefði geigað. Í stað þess að veita fyrirtækinu dauðahöggið, eins og hann hafði fyrirfram sagst ætla að gera, blés hann enn frekara lífi í það, líkt og blaðamaður Wall Street Journal orðar það.

Ackman segir að Herbalife stundi píramídaviðskipti, þannig að það sé alltaf einhver sem tapi og alltaf einhver sem græði meira en aðrir. Allt frá því í desember árið 2012 hefur vogunarsjóður Ackmans, Pershing Square, tekið skortstöðu í Herbalife sem þýðir að hann veðji á að verð hlutabréfa lækki. Hann hefur lagt milljarð Bandaríkjadala að veði í þeim efnum. Það er því ekkert nýtt að hann tjái sig opinberlega um fæðubótaefnarisann. „Gelt hans er alltaf verra en bitið,“ sagði forstjóri Herbalife, John DeSimone í viðtali á CNBC í gær.

Herbalife aldrei verðmætara

Staðan er í raun sú að bréf í Herbalife hafa hækkað um 60% frá því að Ackman og vogunarsjóður hans tóku milljarða dala skortstöðu í fyrirtækinu. En þróunin hefur ekki verið aðeins upp á við, bréfin hafa hækkað og lækkað á víxl og á þessu ári hafa þau lækkað, þrátt fyrir viðskipti gærdagsins, um 14%.

 Stjórnendur Herbalife hafa alla tíð hafnað ásökunum Ackmans. Þeir hafa svarað fyrir sig og sagt Ackman ætla að græða á verðhruni hlutabréfa í fyrirtækinu, á það hafi hann jú veðjað. „Enn einu sinni hefur Bill Ackman ekki staðið við loforðin,“ sagði í tilkynningu Herbalife í gær. „Dagurinn í dag er sönnun þess að Bill Ackman mun ekki takast ætlunarverk sitt.“

Vogunarsjóður Ackmans, Pershing Square Capital Management, hefur einnig notið töluverðrar velgengni að undanförnu. Var ávöxtun sjóðsins 25% á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Var ávöxtunin ein sú besta meðal slíkra sjóða í Bandaríkjunum.

Ginna fátæka til samstarfs

Í kynningu sinni í gær einbeitti Ackman sér að 240 næringarklúbbum Herbalife í Bandaríkjunum, sem hann segir byggða upp sem píramídasvindl og stunduð væri liðssöfnun til að bæta við sölufólki. Hann sagði að í raun væru meðlimir klúbbanna dreifiaðilar, oft fátækir, spænskumælandi innflytjendur. Ackman sagði þá „ginnta“ til að eyða miklum peningum strax í upphafi í vörur fyrirtækisins, hefur m.a. Forbes eftir honum.

Ackman líkti þessari „svikamyllu“ Herbalife við Enron-hneykslið. 

Hann lét marga heyra það í ræðu sinni, s.s. knattspyrnumennina David Beckham og Lionel Messi og sakaði þá um að hafa þegið peninga af Herbalife til að styðja við „svikastarfsemina“.

Ackman hvatti bandarísk stjórnvöld til að rannsaka starfsemi Herbalife frekar. 

„Herbalife, viðskiptavinirnir eru skáldaðir, viðskiptatækifærin eru blekking og háskólagráðurnar eru uppspuni,“ sagði Ackman. 

Þó að skot Ackmans hafi hugsanlega geigað í þetta sinn segist hann ekki ætla að gefast upp. „Ég er mjög, mjög þrjóskur maður. Mjög. Ef ég trúi því að ég hafi rétt fyrir mér og að það sé mikilvægt mun ég ganga eins langt og þarf.“

Bill Ackman segir að Herbalife stundi píramídaviðskipti.
Bill Ackman segir að Herbalife stundi píramídaviðskipti. AFP
Bill Ackman flytur ræðu sína á Manhattan í gær.
Bill Ackman flytur ræðu sína á Manhattan í gær. Skjáskot af Youtube
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK