Innréttingarnar skyndifriðaðar?

Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947.
Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947. Mynd af vefsíðu Skyrtu.is

Verið er að ræða um að skyndifriða innréttingarnar í Fatabúðinni samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands. Verði svo gert verður það í fyrsta skipti sem stofnunin beitir þeirri heimild eftir setningu nýrra laga um menningarminjar árið 2012 þegar Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd voru sameinaðar.

Samkvæmt 20. grein laga um menningarminjar getur Minjastofnun ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu en hún gildir hins vegar einungis í sex vikur og innan þess tíma er því nauðsynlegt að framkvæma hefðbundna friðlýsingu. Engar hlutlægar reglur gilda um skyndifriðun og fer það einungis eftir mati Minjastofnunar hverju sinni hvað teljist hafa slíkt menningarsögulegt gildi að skyndifriðun eigi við.

Eftir að ræða við eigendur

Innréttingarnar eru frá árinu 1947 og því yngri en 100 ára og þar með ekki sjálfkrafa friðaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun er það þó svo, að ef starfsmenn stofnunarinnar verða varir við að einhverju yngra en 100 ára sé ógnað er hægt að beita þessari heimild.

Minjastofnun hefur þó ekki haft samband við eigendur hússins en skyndifriðunin tekur aðeins gildi eftir að eigendum hefur verið tilkynnt um ákvörðunina.

Krua Thai á jarðhæðina

Mbl greindi frá því í síðustu viku að Sonja Lampa, eig­andi veit­ingastaðar­ins Krua Thai, hefði keypt Skóla­vörðustíg 21, þar  sem hún hyggst opna Krua Thai á jarðhæðinni auk þess sem íbúðum á efri hæðum húss­ins verður mögu­lega breytt í gisti­heim­ili. Stefnt er að opn­un veitingastaðarins næsta sum­ar og verður hann í rými hönnunarverslunarinnar Insulu og Skyrtu, þar sem Fatabúðin var áður. Eig­end­ur Skyrtu héldu í upp­runa­leg­ar inn­rétt­ing­ar Fata­búðar­inn­ar er þeir opnuðu sína versl­un.

Fata­búðin var opnuð í hús­inu árið 1927 þegar stofnað var úti­bú á Skóla­vörðustíg, en höfuðstöðvar versl­un­ar­inn­ar voru þá í Hafn­ar­stræti 16. Til skamms tíma var versl­un­in því rek­in á báðum stöðum.

Fyrsta hæð húss­ins á Skóla­vörðustíg 21a var byggð árið 1927 en ofan á húsið var byggt árið 1936. Það var Guðríður Árna­dótt­ir Bramm sem lét byggja húsið en hún stofnaði Fata­búðina og var hún rek­in í fjöl­skyldu henn­ar allt til 1955. Guðríður var þar að auki þekkt at­hafna­kona og hafði áður rekið versl­un á Ísaf­irði og lét meðal ann­ars byggja stór­hýsið Fell þar í bæ sem brann í mikl­um elds­voða á fimmta ára­tugn­um.

Frétt mbl.is: Krua Thai í stað Fatabúðarinnar

Frétt mbl.is: „Synd fyrir miðbæinn“

Innréttingarnar í Fatabúðinni verða mögulega skyndifriðaðar.
Innréttingarnar í Fatabúðinni verða mögulega skyndifriðaðar. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK